Ferðasérfræðingurinn Rick Steves segir að það sé eitt sem maður á aldrei að taka með sér í ferðalag. Farangur til þess að tékka inn. Þetta gildir um alla og allar aðstæður, alveg sama hvað tautar og raular.
Steves ferðast alltaf bara með handfarangur og ekkert meir.
„Það hefur aldrei verið mikilvægara að ferðast létt. Tvær vikur, tveir mánuðir, vetur eða sumar, kona eða karl. Það skiptir ekki máli. Þú þarft bara eina handfarangurstösku,“ segir Steves í Travel+Leisure.
Steves hefur skrifað fjöldan allan af leiðsögubókum og rekur fyrirtækið Rick Steves Europe. Á hverju ári ferðast hann með hópa um heiminn og þarf fólkið að sætta sig við að hafa bara handfarangur með í för. Stærri töskur eru ekki leyfðar.
„Ef maður ferðast létt þá lendir maður ekki í þessu dæmigerða flugvallarveseni. Það eru minni líkur á að farangurinn týnist eða eyðileggist. Þá getur maður auðveldlega millilent án þess að hafa áhyggjur af því að farangurinn komist ekki á leiðarenda,“ segir Steves sem mælir með að fólk fjárfesti í þar til gerðum pökkunareiningum (packing cubes) sem auðvelda alla skipulagningu.