Árlega skíðaferðin í ár var til austurríska skíðabæjarins Ischgl sem staðsettur er í suðvesturhluta Austurríkis í Tíról-héraði.
Bærinn er staðsettur í 1.377 metra hæð yfir sjávarmáli en hæsti tindur skíðasvæðisins er í 2.872 metra hæð og því getur maður verið nokkuð öruggur með góð snjóalög á svæðinu.
Skíðasvæðið er á meðal þeirra stærstu í heiminum og telur alls 239 kílómetra af skíðaleiðum í öllum regnbogans litum.
Skíðasvæðið er á líka á landamærum Austurríkis og Sviss og því hægt að skíða á milli landanna og enda í svissneska alpabænum Samnaun.
Lyfturnar á svæðinu eru í kringum 45 talsins og er lyftukerfið og samgöngumátinn á meðal þeirra bestu sem undirritaður hefur upplifað.
Það hefur kannski ekki farið mikið fyrir því en Ischgl er frábært utanbrautarsvæði, fyrir þá sem hafa áhuga á slíku og ég mæli þá eindregið með því að fólk taki með sér annað hvort fjallaskíði eða fjallabretti til þess að auðvelda sér bröltið.
Ischgl komst í heimsfréttirnar árið 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir heimsbyggðina þar sem yfirvöld í Tíról voru meðal annars sökuð um að leyna smitum á svæðinu.
Talið er að fjöldi Evrópubúa hafi smitast í austurríska alpabænum, þannig borið veiruna með sér til heimalands síns og þaðan hafi faraldurinn dreift sér um alla Evrópu.
Um 2.700 ferðamenn höfðuðu meðal annars málsókn á hendur ráðamönnum í Tíról fyrir að hundsa viðvaranir vegna veirunnar og að bregðast of seint við eftir að ljóst var að fjöldi ferðamanna í bænum var smitaður af veirunni.
Áður en kórónuveirufaraldurinn skaut upp kollinum var stundum talað um Ischgl sem „Ibiza alpanna“ en í dag tala margir um bæinn sem mekka kórónuveirunnar.
Forráðamenn í Tíról hafa unnið hörðum hönum að því að bæta ímynd bæjarins undanfarin ár en fyrir þá sem hafa áhuga á góðu partíi þá er algjörlega óhætt að mæla með Ischgl.
Það er nóg af svokölluðum „aprés ski“ stöðum þar sem hægt að er að dansa fram á rauða nótt. Undirritaður mælir sérstaklega með Trofana Alm þar sem tónlistin er alltaf í botni, eftir klukkan 20 á kvöldin og Kuhstall er einnig frábær, þó lítill sé.
Ég var að fara í mínu fyrstu skíðaferð til Ischgl og ég get með góðri samvisku sagt að þangað fer ég alltaf aftur, jafnvel oftar en tvisvar og jafnvel oftar en tíu sinnum.
Skíðasvæðið hentar eintaklega vel fyrir alla, hvort sem þú ert byrjandi á skíðum eða mjög reyndur skíðamaður.
Bærinn er frábær; lítill og þægilegur og það er allt í göngufæri. Þar er líka mikið af góðum veitingastöðum sem er ekki sjálfgefið í Austurríki.
Svo er partíið líka geggjað, fyrir þá sem hafa gaman að því að sletta vel úr klaufunum eftir langan dag í fjallinu. Mér er því algjörlega óhætt að mæla með „Ibiza alpanna“.