Vísað úr landi vegna nektarmyndar

Yuri Chilikin var vísað úr landi vegna nektarmyndar sem hann …
Yuri Chilikin var vísað úr landi vegna nektarmyndar sem hann tók á heilögu fjalli í Balí. AFP

Rússneskur ferðamaður hefur verið rekinn frá Balí í Indónesíu eftir að hann birti nektarmynd af sjálfum sér á toppi heilags fjalls á eyjunni.

Stjórnvöld í Indónesíu greina frá þessu en stjórnvöld hafa undanfarna mánuði verið í herferð gegn því að ferðamenn hagi sér á ósæmilegan hátt á helgum stöðum á Balí. Eyjan er einn vinsælasti áfangastaður heims.

Ferðamanninum sem gert var að yfirgefa Balí er 24 ára og kallar sig Yuri Chilikin á samfélagsmiðlum. Birti hann mynd af sér berum að neðan á Agung-fjalli, sem er hæsti tindur Balí. Samkvæmt hindúatrú er tindurinn staður guða þeirra. 

Var honum vísað burt á þriðjudag. Fór hann til Moskvu í gegnum Dúbaí. Er honum meinaður aðgangur að Balí næstu sex mánuðina hið minnsta. 

Baðst afsökunar á myndinni

Chilikin baðst afsökunar á myndinni eftir að lögregla hafði upp á honum og yfirheyrði hann. Birti hann mynd á mánudag og sagðist hafa lært sína lexíu. 

Á síðustu árum hefur færst í aukana að kvartað er yfir hegðun ferðamanna á Balí. Þá hafa rússneskir ferðamenn sagðir vera einna verstir þegar kemur að því að fylgja lögum og reglu. 

Wayan Koster, landstjóri Balí, sendi indónesískum stjórnvöldum bréf þess efnis í mars og sendi ákall um að Rússar og Úkraínumenn myndu ekki fá vegabréfsáritun til Balí. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert