Spjallþáttadrottningin Oprah Winfrey er úthvíld og endurnærð eftir heilsu- og vellíðunarferð sem hún fór í ásamt vinkonum sínum til Ítalíu.
Á þriðjudaginn deildi hin 69 ára gamla Winfrey myndum á Instagram eftir að hún sneri heim úr ferð sem hún lýsir sem „bestu vellíðunarferð lífs míns“. Winfrey, ásamt fríðu föruneyti, heimsótti Palazzo Fuiggi, lúxusheilsulind nálægt höfuðborg Ítalíu, Róm, sem státar af sérstöku „lækningarvatni“.
Winfrey, sem undirgekkst tvöfalda hnéaðgerð fyrir tveimur árum, skrifaði um ferðalagið á heimasíðu sína, Oprah Daily,og sagði: „Ef ég myndi ná mér eftir aðgerðina, myndi ég gera ótrúlega hluti með þessum nýju hnjám. Fljótlega fann ég fyrir mikilli löngun til að verða sterkari og heilbrigðari. Ég sló inn í leitarvélina Google „bestu heilsulindir í heimi“ og það fyrsta sem kom upp var Palazzo Fuiggi, á miðri Ítalíu.
Bærinn Fiuggi, þar sem heilsulindin er staðsett, hefur lengi verið þekktur fyrir sínar endurnærandi náttúrulindir og hefur fólk ferðast þangað frá því snemma á 14. öld til þess að njóta þeirra ríku krafta sem búa í vatninu. „Það er þekkt fyrir að bæta nýrun og koma jafnvægi á ónæmiskerfið, það hefur verið vísindalega sannað,“ sagði forstöðumaður heilsulindarinnar, David Della Morte Canosci.
Vatn er stór hluti alls þess sem heilsulindin býður upp á þegar gestir mæta í leit að bættri heilsu, bata, betri einbeitingu og þyngdartapi.
Meðan á dvöl Winfrey stóð gekkst hún undir læknisskoðanir sem og sérsniðnar heilsumeðferðir, ómskoðun, blóðþrýstingsmælingar, legu í sundlaug með magnesíum og salti, heitsteinanudd, leirbað og fleira heilsubætandi. „Ég hef farið í margar heilsulindir í gegnum árin – ég hef slakað á og fyllst af vellíðan, vaknað við fuglasöng fyrir jógatíma, svelt mig og djúshreinsað og hvað annað. Ég hef aldrei upplifað neitt eins og þetta,“ sagði Winfrey.
Winfrey endaði færsluna á orðunum: „Stærsti lærdómurinn? Þessi líkami, hugur og sál sem við eigum verðskuldar umönnun okkar. Hvort sem það er í fjarlægri heilsulind eða heima við. Við þurfum öll að finna þann tíma og það pláss sem til þarf til að endurbyggja, endurhlaða og endurnýja. Frá vellíðan til heilbrigðis - það er ferðin sem ég óska þér.“