Fastir í tvo daga á leið heim frá Íslandi

Flugfélagið virðist ekki á þeim skónum að aðstoða bræðurna.
Flugfélagið virðist ekki á þeim skónum að aðstoða bræðurna. AFP/Daniel Slim

Eftir gott frí á Íslandi ætluðu bræður tveir að leggja leið sína heim til Idaho-ríkis í Bandaríkjunum. Bræðurnir höfðu ferðast í um 36 tíma, með millilendingu í höfuðborg Finnlands, þegar til Dallas var komið.

Þar strönduðu þeir þegar flugi þeirra til Boise í Idaho var aflýst. Upprunalega áttu bræðurnir að fljúga á fimmtudegi en þeir þurftu að gista í Dallas í tvo daga og bíða eftir næsta flugi, tveimur dögum síðar.

Tafir og aflýsingar geta alltaf fylgt ferðalögum en í þetta sinn þurftu farþegarnir að greiða allan auka kostnað úr eigin vasa vegna tafarinnar.

Finnast ekki í kerfi flugfélagsins

Meginvandinn var ekki aflýsing flugsins heldur sú staðreynd að flugfélagið, American Airlines, neitaði að létta undir bræðrunum hvað varðaði útgjöld vegna gistingar og máltíða.

Bræðurnir enduðu því á að greiða um 70 þúsund krónur fyrir gistingu og mat í tvo daga vegna tafarinnar, að því er greint er frá í Business Insider.

Þegar bræðurnir höfðu samband við þjónustufulltrúa flugfélagsins var þeim tjáð að þeir myndu ekki fá neinar endurgreiðslur nema þeir afbókuðu flugið.

Þá hafi þeim þó verið sagt að geyma allar kvittanir til þess að eiga möguleika á endurgreiðslu, en þegar þjónustufulltrúinn reyndi að hjálpa þeim komu þeir ekki upp í kerfi flugfélagsins og lítið hægt að gera.

Bræðurnir eru því komnir heim, 70 þúsund krónum fátækari, eftir leiðinlega töf og enga endurgreiðslu í sjónmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert