Breski tónlistarmaðurinn Ian Anderson hlakkar til að heimsækja versta indverska veitingastaðinn í Reykjavík þegar hann kemur til landsins í byrjun maí. Þá nær hann kannski að borða í friði.
Hljómsveit hans, Jethro Tull, mætir til landsins í næstu viku og heldur sína þrettándu tónleika hér á landi. Í viðtali við Morgunblaðið á laugardag sagði Anderson að stopppið yrði stutt að þessu sinni og vildi lítið gefa upp um hvað hann ætlaði að gera.
„Ég er þó með lista af hlutum sem mig langar að gera en ég ætla ekki að upplýsa um hvað það er því ég vil gera það einn. Mér finnst almennt gott að vera einn og upplifa hluti án þess að einhver sé að blaðra. Mér finnst gott að vera með köttunum mínum því maður tengist þeim á einhvern andlegan hátt. Ég fer með þeim í göngutúr því þeir hafa tilhneigingu til að sleppa því að tala. Mér finnst konan mín líka ágæt því við getum bæði talað saman og þagað saman,“ segir Anderson.
„Ég hlakka til að heimsækja versta indverska veitingastaðinn í Reykjavík. Ég ætla að finna hann í von um að hann verði galtómur og ég geti fengið að borða í friði,“ segir Anderson.
Um 70 tónleikar eru á dagskrá hjá Jethro Tull á árinu.
„Ég hef ekki gaman af sjálfum ferðalögunum, það er svo mikil tímaeyðsla, að bíða á flugvöllum, koma sér til og frá flugvöllum. En það er annað mál að leika á tónleikum, til þess er ég kominn. Og eins ef það er auðvelt og öruggt að fara út fyrir hótelið, þá er það líka góður hluti dagsins. Ég reyni að gera það hvar sem ég kem, ganga um í klukkutíma eða tvo og heimsækja dómkirkju eða listasafn. Og ósjaldan hitti ég aðra hljómsveitarmeðlimi á þeim stöðum að gera akkúrat það saman. Við viljum allir fá smá tilfinningu fyrir menningu hverrar borgar fyrir sig. Það er góður partur af deginum en er því miður stuttur því ég þarf alltaf að grípa hádegismat, fara í hljóðprufur og spila sjálfa tónleikana. Svo þarf ég oftar en ekki að leggja af stað eitthvað annað klukkan sex eða sjö morguninn eftir. Ég hef komið oft til Íslands en ég hef aldrei haft tíma til að vera túristi og skoða mig um.“
Viðtalið við Anderson má lesa í laugardagsblaði Morgunblaðsins.