Flottustu veitingastaðirnir í Lundúnum

Það er nóg af fallegum veitingastöðum í Lundúnum.
Það er nóg af fallegum veitingastöðum í Lundúnum. Samsett mynd

Það er mikið um að vera í Lundúnum næstu helgi þar sem krýning Karls III Bretakonungs mun meðal annars fara fram. Borgin er stútfull af dýrindis veitingastöðum með fjölbreyttu úrvali, allt frá réttum með skandinavísku ívafi yfir í bragðmikla rétti innblásna af Sri Lanka.

Ferðavefur mbl.is tók saman fimm flottustu veitingastaðina sem ættu bæði að gleðja augað og bragðlaukana.

Lyle's

Veitingastaðurinn Lyle's er án efa með skandinavísku ívafi, bæði í hönnun og matargerð. Kokkur staðarins, James Lowe, hefur meðal annars starfað í Kaupmannahöfn og sótti innblástur þangað. 

Staðurinn er í gamalli teverksmiðju, en hönnun hans ber þess merki og heldur í hráan iðnaðarstílinn í bland við mýkri skandinavíska hönnun og náttúrulegan efnivið. Lowe töfrar fram fjóra vandlega samsetta rétti á hverju kvöldi, en matseðillinn er breytilegur frá degi til dags.

Ljósmynd/Lyleslondon.com

Paradise

Veitingamaðurinn Dom Fernando sækir innblástur fyrir matseðil Paradise til ömmu sinnar, en hann heimsótti hana í bernsku til Sri Lanka. Það er alvöru kikk í uppskriftum Fernando sem hefur töfrar fram bragðmikla rétti í Soho-hverfinu.

Veitingastaðurinn er stílhreinn þar sem gráir, svartir og brúnir tónar eru í aðalhlutverki. Hráir kalkmálaðir veggirnir gefa staðnum mikinn sjarma og karakter til móts við viðardrumba í lofti og leðuráklæði sem hleypa hlýju inn í rýmið. 

Ljósmynd/Paradisesoho.com

Petersham Nurseries

Petersham er einn af ástsælustu veitingastöðum Lundúna, en það er mikill sjarmi yfir staðnum þar sem litagleðin ræður för. Stórar kristalsljósakrónur, plöntur og blóm og litaglöð málverk mæta hrárri áferð og mynda notalega stemningu.

Matseðillinn er fjölbreyttur, en á sumrin er hægt að sitja úti í sólinni í guðdómlegum garði.

Ljósmynd/Petershamnurseries.com

Native

Hjónin Imogen Davis og Ivan Tisdall-Downes opnuðu þennan skemmtilega veitingastað í Mayfair, en þeirra hugmyndafræði byggir á engri sóun. Á matseðlinum má finna klassíska rétti sem slá í gegn.

Staðurinn er ævintýralegur þar sem skemmtilegir litir setja punktinn yfir i-ið.

Ljósmynd/Nativerestaurant.co.uk

Lisboeta

Portúgalski kokkurinn Nuno Mendes hefur eldað víðsvegar um heim og hlotið tvær Michelin-stjörnur. Á Lisboeta eldar Mendes uppskriftir frá heimalandi sínu, Portúgal, með úrvali af dýrindis réttum. 

Staðurinn hefur verið innréttaður á skemmtilegan og stílhreinan máta. Litirnir tóna fallega saman við húsgögnin sem eru sérlega formfögur.

Ljósmynd/Mjmk.co.uk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert