Hönnunarhótelið cōmodo er staðsett í þorpinu Bad Gastein í Hohe Tauern-fjallagarðinum í Austurríki. Einstök fagurfræði einkennir hótelið sem er umvafið töfrandi landslagi og víðáttumiklu útsýni.
Hótelið er nýtt af nálinni og opnaði fyrst dyrnar síðastliðin vetur. Byggingin á hins vegar merka sögu, en hún var fyrst reist árið 1881. Hún hlaut svo allsherjar yfirhalningu árið 1960, en í dag ber hönnun hótelsins þess merki þar sem fagurfræði sjötta áratugarins er í forgrunni.
Á hótelinu mætist módernismi, úrvalsstefna og samtímalist sem skapa notalega og fágaða stemningu.
Það var weStudio sem sá um arkitektúr og innanhússhönnun hótelsins sem státar af 70 herbergjum. Þar má einnig finna glæsilega heilsulind, jógasal, innisundlaug og tvær saunur.
Hvert smáatriði hefur verið útpælt á hótelinu, en þar má sjá sérsmíðuð húsgögn, sérhönnuð veggfóður og mikið af náttúrulegri áferð sem endurspeglar landslagið í kring. Þá er litapalletta hótelsins einnig í takt við umhverfið og flæðir fallega í gegnum hótelið.