Icelandair flýgur til Færeyja

Icelandair tilkynnir í dag Færeyjar sem nýjan áfangastað.
Icelandair tilkynnir í dag Færeyjar sem nýjan áfangastað. Samsett mynd

Icelandair tilkynnir í dag Færeyjar sem nýjan áfangastað. Flogið verður fimm til sex sinnum í viku frá 1. maí og út október á næsta ári. Flogið er í morgunflugi frá Keflavíkurflugvelli og tengist áfangastaðurinn því mjög vel inn í leiðakerfi Icelandair í Keflavík. Flugtími er ein klukkustund og 45 mínútur.

Færeyjar eru í miklum vexti sem ferðamannastaður enda hafa þær upp á margt að bjóða. Stórbrotin og óspillt náttúra einkennir eyjarnar sem hafa lengi verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga enda er þessi frændþjóð okkar þekkt fyrir einstaka gestrisni og frábæra matarmenningu.

Færeyjar vaxandi áfangastaður

Icelandair og færeyska flugfélagið Atlantic Airways hafa einnig undirritað viljayfirlýsingu um samstarf enda liggja mikil tækifæri í að bjóða viðskiptavinum félaganna þægilegar tengingar á milli Færeyja og áfangastaða Icelandair í Evrópu og Norður-Ameríku.

„Það er mjög ánægjulegt að kynna flug til Færeyja. Færeyjar eru vaxandi áfangastaður og við finnum fyrir miklum áhuga á flugi þangað hjá viðskiptavinum okkar um allan heim. Tengsl Færeyinga og Íslendinga hafa alltaf verið mikil og okkar von er sú að með aukinni ferðatíðni muni þau tengsl og samvinna styrkjast enn frekar. Í þeim anda munum við nú hefja vinnu við að efla samstarf okkar við Atlantic Airways. Við höfum í gegnum árin átt í góðu samstarfi við félagið en sjáum mikil tækifæri í að efla það enn frekar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Hlutverk Atlantic Airways er að tengja Færeyjar umheiminum. Við höfum átt í góðu samstarfi við Icelandair um áratugaskeið og tengt Færeyjar við Ísland. Bandarískir ferðamenn eru vaxandi hópur og mikilvægur fyrir færeyska ferðaþjónustu og þessi viljayfirlýsing greiðir leiðina að því að tengjast betur Íslandi og öflugu leiðakerfi Icelandair til Bandaríkjanna og Evrópu,“ segir Jóhanna á Bergi, forstjóri Atlantic Airways.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert