Nýtt bílastæðakerfi við Keflavíkurflugvöll

Flugstöð Leif Eiríkssonar.
Flugstöð Leif Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Isavia tekur upp nýtt bílastæðakerfi á Keflavíkurflugvelli í næstu viku með aðgangsstýringu sem les bílnúmer. Því þarf ekki lengur að taka miða þegar keyrt er inn á bílastæðin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Kemur þessi nýjung í gagnið í næstu viku á skammtímastæðin P1 og P2, sem eru staðsett brottfaramegin og komumeginn, og einnig verður þetta til staðar á langtímastæðinu P3 en það eru nokkrar vikur í það.

„Við á Keflavíkurflugvelli erum afskaplega spennt að kynna þessa nýjung fyrir gestum Keflavíkurflugvallar, því markmiðið er að auka þægindi þeirra og gera ferðalagið ánægjulegra,“ er haft eftir Gunnari Inga Hafsteinssyni, deildarstjóri bílastæðaþjónustu á Keflavíkurflugvelli, í tilkynningunni. „Þetta mun einfalda alla notkun bílastæðanna – tryggja greiðari aðgang og spara tíma.“ 

Gott að bóka stæði með góðum fyrirvara

Í tilkynningunni er einnig tekið fram að nýtt kerfi muni gefa gestum Keflavíkurflugvallar möguleika á fjölbreyttari greiðslumöguleikum.

„Sem fyrr er mælt með því að hugað sé að því hvernig farþegar ferðast til og frá flugvellinum um leið og flugmiðinn er bókaður. Til að tryggja sér bílastæði verður áfram hagstæðast að bóka þau  með góðum fyrirvara á heimasíðu Keflavíkurflugvallar eða með appi Autopay.“

Kerfið byggir á lausnum frá fyrirtækinu Autopay.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert