Strandgestum á Flórída brá í brún

Svartbjörn baðaði sig í sjónum ásamt strangestum í Destin á …
Svartbjörn baðaði sig í sjónum ásamt strangestum í Destin á Flórída. Samsett mynd

Strandgestum á Flórída brá heldur betur í brún þegar þeir sáu svartbjörn syndandi í sjónum, en það var eflaust með því síðasta sem þeir bjuggust við að sjá á þessum sólríka degi. 

Síðastliðinn sunnudag var slatti af fólki mættur á ströndina í Destin á Flórída til þess að sleikja sólina og svamla í sjónum. Fólki var mjög brugðið þegar óvæntur gestur kom syndandi í áttina að ströndinni.

Myndskeið sem strandgestir náðu sýnir svartbjörninn synda í sjónum rétt áður en hann nær í land og forðar sér. „Við horfðum á hann í nokkrar mínútur og hann var ansi langt úti," sagði einn strandgestanna við sjónvarpsstöðina CNN. „Fæstir áttuðu sig á því að þetta var björn, fólk var í sjokki.“

Svartbirni er að finna víðs vegar um Flórída og er þetta eina bjarnartegundin í ríkinu, samkvæmt Florida Fish and Wildlife Conservation Commission. Það er áætlað að það séu yfir 4.000 svartbirnir á Flórída.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert