Flutti eftir að hafa farið einu sinni í helgarfrí

Sædís og Þórir tóku sig til og fluttu á Bakkafjörð.
Sædís og Þórir tóku sig til og fluttu á Bakkafjörð.

Þórir Örn Jónsson, framkvæmdastjóri NorthEast á Bakkafirði, hefur átt þátt í að rífa upp stemninguna á Bakkafirði að undanförnu ásamt konu sinni Sædísi Ágústsdóttur. Hann rekur meðal annars ferðaþjónustufyrirtæki en stendur líka fyrir alvöru íslenskri útihátíð í bænum í lok júní.

Það eru flestir hissa á því að ég flutti hingað bara fyrir fjórum árum eftir að hafa komið hingað einu sinni í helgarfrí. Ég á konu og tvö lítil börn í dag en við tengjumst ekki Bakkafirði á neinn hátt,“ segir Þórir um sjávarplássið sem hann er á góðri leið með að gera að heillandi áfangastað ferðamanna.

„Við komum hingað að sumri til og þetta var alveg ótrúlega notalegt. Síðan var kórónuveirufaraldurinn að skella á og ég var náttúrlega leiðsögumaður þannig að okkur fannst bara heillandi að koma hingað og ætluðum bara að stoppa stutt. Við leigðum hús til að byrja með og ég var að róa hérna á nokkrum bátum. Núna fjórum árum seinna á ég tvö fyrirtæki, rek þriðja og á tvö einbýlishús og hitt og þetta,“ segir hann.

Þórir hefur verið í ferðageiranum í tíu ár en ákvað að gerast leiðsögumaður vegna þess að hann hefur brennandi áhuga á fólki. „Ég hef alltaf elskað að hitta nýtt fólk og viljað vera þar sem maður kynnist fólki alls staðar frá,“ segir Þórir sem vann meðal annars í einkaleiðsögn, þyrlubransanum og sem rekstrarstjóri hjá hvalaskoðunarfyrirtæki.

Góð gönguleið er út að vitanum.
Góð gönguleið er út að vitanum.

Halda Bakkafest hátíðlega

Þórir og Sædís sáu fram á að geta komið undir sig fótunum á Bakkafirði. „Það er ekkert orðið líft í Reykjavík þegar kemur að fasteignum. Það er ekkert leyndarmál að ég keypti 150 fermetra einbýlishús hér með bílskúr og stórum garði á átta milljónir. Síðan er þetta voða rólegt og notalegt. Það er ekkert stress,“ segir Þórir.

Líf Þóris virðist reyndar ekki alveg stresslaust enda í nógu að snúast hjá þeim en þau vilja hafa mikið að gera. „Við ákváðum að búa hérna og tókum þátt í verkefninu Brothættar byggðir við að reyna að byggja upp ferðaþjónustuna. Við erum líka farin af stað með útihátíð sem við verðum með í þriðja sinn í ár. Þetta er ákveðið verkefni í að byggja upp samfélagið, sem var á hraðri niðurleið,“ segir Þórir.

Hugmyndin að útihátíðinni Bakkafest kom fyrir fjórum árum á tjaldstæðinu á Bakkafirði sem parið rekur einnig. Þórir segist hafa lofað einum ágætum Bakkfirðingi að halda útihátíð. „Bakkafest var haldin ári síðar og þá mættu 350 manns, sem er frábært miðað við að þetta samfélag er pínulítið. Bakkafest er alvöru íslensk tónlistarhátíð. Það eru lopapeysur og kúrekahattar og það er sungið alveg langt fram á nótt,“ segir Þórir. Í fyrra mættu 450 manns. Hann segir fólk alls staðar að koma á hátíðina, hvort sem það eru brottfluttir Bakkfirðingar eða fólk sem hefur tengsl við Bakkafjörð síðan í gamla daga þegar það vann í fiski eða á bátunum. Fólk úr nærliggjandi þorpum hópast líka inn á Bakkafjörð og í fyrra kom fólk frá Reykjavík og Akureyri til að skemmta sér þar.

Hreindýrin eru í bakgarðinum.
Hreindýrin eru í bakgarðinum.

Heillandi einangrun

Hvað er svona töfrandi við Bakkafjörð?

„Þetta er falin perla, það er frábært náttúrulíf, við heyrum stundum í hvölunum þegar við stöndum heima í eldhúsinu. Hreindýrin eru oft bókstaflega í bakgarðinum hjá okkur.“

Ferðamenn sem koma til Bakkafjarðar eru meðal annars að leita eftir kyrrðinni og einangruninni og segist Þórir gera út á það. Útivera er helsta afþreying á svæðinu. „Það eru frábærar gönguleiðir hér, góðar akstursleiðir stutt frá okkur og lítil sveitasundlaug. Flestir sem koma til okkar segja að þetta sé eins og að kúpla sig út í smá stund, slappa aðeins af. Næst væri að opna „retreat“ á Bakkafirði.“

Þórir heyrir í hvölunum heiman frá sér.
Þórir heyrir í hvölunum heiman frá sér.

„Við erum með mjög fjölbreytt úrval af fallegum gönguleiðum hérna. Við mælum alltaf með gönguleiðinni út að Digranesvita, sem er klukkutíma til eins og hálfs tíma ganga frá gistiheimilinu okkar. Það er alveg frábært útsýni þar út frá.“

Þórir keypti bát í vetur. „Ég er farinn að róa minna sjálfur. Ég á strandveiðibát sem pabbi minn rær á. Ég er aðallega að sjá um vinnsluna í landi og halda þessu rúllandi inni á Bakkafirði,“ segir Þórir. „Það hefur sína kosti að vera með fiskvinnslu og veitingastað hlið við hlið. Yfir sumartímann erum við með opið alla daga, allan daginn,“ segir Þórir.

Heldurðu að fólk sé uppgötva Bakkafjörð núna?

„Já, við erum að verða uppbókuð út sumarið sem er frábært miðað við að við opnuðum ferðaþjónustufyrirtækið í maí í fyrra. Við bjuggumst við rólegu sumri í fyrra sem var alls ekki. Við erum að sjá 40 prósent aukningu,“ segir Þórir. Á gistiheimilinu eru erlendir ferðamenn 80 til 90 prósent þeirra sem koma til þeirra. Á tjaldstæðinu er einnig mikill fjöldi erlendir ferðamenn og koma margir úr Norrænu, Bakkafjörður er þá yfirleitt þeirra fyrsta stopp.

Þórir stendur fyrir alvöru útihátíð á Bakkafirði.
Þórir stendur fyrir alvöru útihátíð á Bakkafirði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka