Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands, segir hvergi betra að vera en í Hrísey. Hún féll fyrir eyjunni á fullorðinsárum og lét gamlan draum verða að veruleika þegar hún fjárfesti í húsi í eyjunni með vinahópnum.
„Ég byrjaði að koma þarna í frí með vinkonu minni sem hafði gert það í mörg sumur. Hún var alltaf að tala um hvað þetta væri æðislegt og frábært og eitt sumarið dreif ég mig loksins með henni. Ég varð yfir mig hrifin eins og hún og aðrar í vinahópnum okkar. Það er svo ótrúlega þægilegt að vera þarna. Það er yndisleg bók um eyjuna sem heitir Þar sem tíminn hverfur og það er einhvern veginn hin fullkomna lýsing. Maður gengur frá borði og það hægist á öllu. Þú finnur einhverja ró sem er ekki til annars staðar,“ segir Silja Bára.
Eftir nokkur sumur í Hrísey ákváðu Silja og vinkonur hennar að kaupa hús saman í eyjunni.
„Við höfðum látið okkur dreyma um að einhvern tímann þegar við yrðum stórar hefðum við efni á þessu. Svo eitt kvöldið opnaði ég fasteignavefinn og sá að það var verið að auglýsa tvö hús til sölu. Daginn eftir fórum við að skoða og féllum fyrir húsinu sem við síðan eignuðumst. Við erum fjórar saman, þannig náum við meiri nýtingu, börn og systkini og fjölskyldur eru sjúk í að vera með okkur og vilja vera eins oft og hægt er. Við förum mjög mikið saman líka vinahópurinn og erum að dunda okkur,“ segir hún og bætir við að einnig sé hægt að vinna frá eyjunni en oftast er tíminn nýttur í að njóta lífsins.
Silja Bára segir að vinkonurnar hafi fengið yndislegar móttökur frá Hríseyingum en á sama tíma hefur vinahópurinn lagt sig fram við að taka þátt í félagslífinu í eyjunni. „Það er Hríseyjarhátíð, það er þorrablót, við reynum að taka þátt í því sem er í boði í samfélaginu,“ segir hún.
Það er sem sagt ekkert síðra að kaupa hús í Hrísey en sumarbústað í Biskupstungum?
„Ég hef aldrei verið spennt fyrir hugmyndinni um sumarbústað. Í Hrísey kemur þú í samfélag. Þarna er sundlaug, veitingastaður og lítil verslun. Það er líf í þorpinu. Það er æðisleg náttúra, það er mjög auðvelt að komast í snertingu við umhverfið en maður er ekki einn einhvers staðar úti í buskanum,“ segir hún.
Silja Bára mælir með því að gera sér ferð út í Hrísey í sumar. „Þetta er lítil eyja. Það er ærslabelgur, mínígolf og frísbígolf, æðislegar gönguleiðir. Margt sem er hægt að dunda sér við. Það er samt oft fullt prógramm að fá sér morgunmat, fara í sund, jafnvel sjósund, og labba einn hring. Það er alveg geggjaður dagur. Það er líka safn og veitingastaður sem er með opið frá hádegi fram á kvöld á sumrin þannig að maður þarf ekki endilega að koma með nesti með sér en það er líka hægt og þá er hægt að grilla. Þetta er alveg fín dagsferð en ég mundi líka mæla með að gista í nokkrar nætur.“
Hápunktur sumarsins hjá Silju Báru er að dvelja í Hrísey. „Ég ferðast mikið á veturna vegna vinnunnar. Á sumrin vil ég helst bara vera á Íslandi og þá er hvergi betra að vera en í Hrísey,“ segir hún.