Nekt, kynlíf og virðingarleysi á Balí

Myndin sem kom rússneskri konu í klandur á Balí.
Myndin sem kom rússneskri konu í klandur á Balí. Instagram: niluhdjelantik

Héraðsstjóri Balí, Wayan Koster, sendi á dögunum frá sér tillögur um reglur sem ætlað er að taka á áralangri hegðun ferðamanna á eyjunni sem tilheyrir Indónesíu.

Koster leggur til að ferðamenn sem koma til Balí fái afhent skjal þar sem þeim er ráðlagt að klæða sig hóflega í musterum og forðast að snerta heilög tré. Þeir mega alls ekki blóta á almannafæri, vanvirða trúarhof eða trufla þorpshátíðir innfæddra. Einnig leggur hann til bann við fjallaferðamennsku um fagra tinda og eldfjöll Balí sem eru viðkvæmar náttúruperlur.  

Tillagan kom fljótlega eftir að þýsk kona gekk nakin inn í musteri á Balí og rússnesk kona birti nekt­ar­mynd af sér við heil­agt tré. Í mars var rússneskum bloggara vísað frá Balí fyrir að taka rassamynd af sér við eldfjall en yfir hundrað ferðamönnum hefur verið vísað frá eyjunni það sem af er ári fyrir það sem eyjarskeggjar upplifa dólgslega hegðun.

Truflar andlegt jafnvægi eyjarinnar

Þó Balí sé einn vinsælasti ferðamannastaður Asíu með óteljandi áhugaverð þorp, hof og náttúrufegurð þá vill það gleymast að menning innfæddra á sér djúpar rætur í fornum trúarathöfnum sem bera þarf virðingu fyrir. Balí er þakið helgum stöðum í menningu þar sem hindúar eru í meirihluta.

„Ferðamenn á Balí skilja margir hverjir ekki hversu mikil áhrif þeir geta haft á eyjuna með gjörðum sínum,“ segir I Nengah Subadra, dósent í ferðaþjónustu við Triatma Mulya háskólann á Balí í viðtali við National Geographic.  

„Að klæða sig of frjálslega, tala of hátt eða snerta einhvern of náið á helgum stöðum truflar viðkvæmt andlegt jafnvægi eyjarinnar. Slík hegðun móðgar ekki bara heimamenn, hún truflar líka hindúaguði Balí,“ segir hann. Til að friðþægja þessa guði og endurheimta „kosmíska sátt“ framkvæma Balíbúar forna helgisiði á þessum stöðum sem ferðamenn hafa truflað og hreinsa þá af því sem þeir upplifa neikvæða orku.

Gremjan vaxandi í mörg ár

I Nengah Subadra segir að gremja vegna hegðunar ferðamanna hafi farið vaxandi á Balí í mörg ár og vitnar í atvik árið 2013 þar sem eistnesk hjón stunduðu kynlíf í musteri. Hann segir fyrirhugar reglur ferðamanna fái þó misjafnar móttökur heimamanna.

„Sumir íbúar Balí sem hlynntir eru menningarvernd eru mjög ánægðir með þetta,“ segir hann. „Talsmenn ferðaþjónustufyrirtækja, einkum þeirra sem bjóða upp á ferðir til fjalla, kvarta yfir þessu og telja þetta of harkaleg viðbrögð.“

Ekki er vitað hvort eða hvenær tillögur héraðsstjórans koma til framkvæmda. Þangað til er lagt til að ferðamenn sýni siðum heimamanna virðingu og stilli fáklæddum myndatökum í hóf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka