Ef þig langar að upplifa eitthvað einstakt í sumar þá er Flatey á Breiðafirði staðurinn. Auðvelt er að sigla með Baldri frá Stykkishólmi eða frá Brjánslæk. Eyjan er fögur og full af ævintýrum
Flatey við Breiðafjörð er ein af þessum eyjum sem fólk fær þráhyggju fyrir. Í Flatey eru lítil krúttleg hús sem eru máluð á litríkan hátt. Þau minna á gamla tímann og alla velmegunina sem ríkti á staðnum hér áður fyrr.
Hótel Flatey er sérkafli út af fyrir sig og í sumar er boðið upp á sérstaka skemmtidagskrá með úrvals tónlistarfólki. Tónlistarmenn á borð við Emmsjé Gauta, Ragnheiði Gröndal, Sölku Sól og SKE verða með tónleika í sumar. Ef fólk ætlar að fá gistingu og ferð með Baldri þá þarf það að skipuleggja sig því tónleikarnir eru eftirsóttir.
Í Flatey er kirkja en hana prýða einstök listaverk eftir Baltasar Samper. Á þessari ævintýraeyju er bæði hægt að upplifa mikið fjör en líka kyrrð, ró og sjaldséð tímaleysi. Flatey er alls ekki bara eyja fullorðna fólksins því litlir landkönnuðir munu njóta sín vel með fjársjóðskort að vopni í leit að gullpeningum. Það ættu því allir aldurshópar að geta fundið skemmtun við sitt hæfi og jafnvel innri frið.