Löng helgi á Vesturlandi og Vestfjörðum

Staðsetning kaffihússins alveg niðri í fjörukambinum er óneitanlega skemmtileg.
Staðsetning kaffihússins alveg niðri í fjörukambinum er óneitanlega skemmtileg. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Skottastu upp í bíl og taktu nokkra daga á Vesturlandi og Vestfjörðum í sumar. Það er hægt að koma við á Snæfellsnesi, Rauðasandi og Bíldudal í einni ferð. Á svæðinu eru margar góðar sundlaugar og nokkrir fegurstu staðir Íslands.

Dagur 1

Hellnar

Áður en haldið er af stað í ævintýri dagsins er mikilvægt að fá sér gott kaffi. Kaffi bragðast enn betur í fallegu umhverfi og það á heldur betur við á Hellnum. Á Fjöruhúsinu á Hellnum er hægt að drekka kaffið úti á palli, njóta útsýnisins og láta vindinn leika um hárið.

Vatnshellir.
Vatnshellir. Ljósmynd/Helgi Bjarnason

Vatnshellir

Það er skemmtilegt að skoða Vatnshelli með leiðsögn. Hellirinn er átta þúsund ára gamall hraunhellir. Gengið er niður stiga djúpt ofan í jörðina með hjálm og ljós, mælt er með því að koma vel klæddur í skoðunina. Þegar niður er komið má virða tilkomumikinn hellinn fyrir sér.

Djúpalónssandur

Það er bráðnauðsynlegt að koma við á Djúpalónssandi og reyna við aflraunasteinana en áður fyrr reyndu menn krafta sína með því að lyfta steinum. Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur og Amlóði eru steinarnir á Djúpalónssandi. Tilvalið er að rifja upp Bárðar sögu Snæfellsáss. Bárður átti mennska móður en hálftröll fyrir föður og segir sagan að hann hafi numið land í Djúpalóni.

Sundlaugin í Grundarfirði

Eftir að hafa keyrt fyrir nesið má bruna í sundlaugina í Grundarfirði. Laugin er lítil og þægileg en með vaðlaug og heitum pottum. Eftir góðan sundsprett er hægt að virða fyrir sér bæjarfjallið Kirkjufell.

Sjávarpakkhúsið

Það er fátt betra en að borða góðan mat á Sjávarpakkhúsinu í Stykkishólmi eftir viðburðaríkan dag á Snæfellsnesi. Eins og nafnið gefur til kynna er þar borið fram fyrsta flokks sjávarfang. Það er gott ráð að panta borð og ef fólk er í stuði má gefa sér tíma og skella sér í sex rétta smekkseðil.

mbl.is/Hótel Flatey

Dagur 2

Ferjan Baldur

Dagurinn byrjar á siglingu út í Flatey á Breiðafirði. Það er sterkur leikur að hugsa fram í tímann og senda bílinn á undan sér til Brjánslækjar og dvelja í stutta stund í Flatey.

Flatey

Þegar komið er út í Flatey upplifir fólk kyrrð og ró. Gott er að byrja að ganga um bæinn þar sem mörg gömul og uppgerð hús eru. Það er notalegt að setjast í góða laut og borða nesti en ef fólk vill vera lengur og gera vel við sig er óhætt að mæla með veitingastaðnum á Hótel Flatey.

Hellulaug

Það er mikilvægt að baða sig á hverjum degi, baðstaður dagsins er náttúrulaugin Hellulaug. Laugin er lítil og krúttleg og nálægðin við sjóinn gerir hana einstaka.

Flókalundur

Deginum lýkur með tjaldútilegu í Flókalundi. Þar er góð stemning og hægt að grilla alvöru útilegumat á borð við pulsur eða hamborgara. Allir þurfa að fara í að minnsta kosti eina útilegu á sumri.

Rauðasandur.
Rauðasandur. mbl.is/Sigurður Bogi

Dagur 3

Sundlaugin í Laugarnesi

Það er ekki hægt að byrja daginn á betri hátt en að skella sér í sund. Sundlaugin í Laugarnesi á Barðaströnd er rómantísk sveitalaug. Laugin er alveg við sjóinn með glæsilegu útsýni yfir Breiðafjörð.

Rauðisandur

Rauðisandur á sunnaverðum Vestfjörðum er einstök náttúrperla og þangað verða allir að fara og leika sér, ungir sem aldnir. Rauðisandur er tíu kílómetra löng strandlengja með rauðum sandi en liturinn getur breyst eftir birtuskilyrðum. Rauðisandur hefur verið valinn á meðal fegurstu stranda í Evrópu af Lonley Planet.

Stúkuhúsið

Á Patreksfirði er veitingastaðurinn Stúkuhúsið og þar er hægt að láta líða úr sér og seðja hungrið. Langar þig í súpu, fisk dagsins eða köku? Það er bara að velja!

Skrímslasetrið

Á Bíldudal er Skrímslasetrið en þar má fræðast um skrímslasögur þjóðarinnar. Það er ekki að ástæðulausu að skrímslin hafa fengið fasta búsetu á Bíldudal við Arnarfjörð en staðurinn er sagður einn mesti skrímslastaður landsins.

Ferð út í Flatey í góðu veðri er ógleymanleg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka