Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, ólst upp í Ögri við Ísafjarðardjúp. Hann og systkini hans reka ferðaþjónustu á jörðinni auk þess sem kaffihús, sem kallað er Þjóðlegt með kaffinu, er rekið þar á sumrin. Hápunktur sumarsins er Ögurballið í júlí.
„Ég er einn af þessum sjö Ögursystkinum, við ólumst upp í Ögri, foreldrar okkar voru bændur í Ögri. Við erfðum jörðina þegar þau féllu frá 2009 og 2012. Við erum mikið þar og þar eru hús sem við þurfum að halda við. Þar er kirkja og gamla læknishúsið sem við ólumst upp í og útihús og við höfum byggt okkur nokkra sumarbústaði,“ segir Halldór sem býr núna í Reykjavík en hann var meðal annars bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og seinna borgarfulltrúi í Reykjavík.
„Við skiptum okkur niður eftir sumarfríunum en erum yfirleitt öll þarna í kringum Ögurhátíðina sem verður núna 22. júlí. Það má segja að ballið hafi verið haldið síðan Samkomuhúsið var byggt 1925. Áður var þetta félagastarf í þessu gamla sveitarfélagi sem eiginlega enginn býr í lengur. Í kringum 1998 og 1999 hafði ballið fallið niður í nokkur ár og þá tókum við þetta upp, réðum hljómsveit og höfum haldið því óslitið síðan. Nú er næsta kynslóð. börnin okkar, farin að skipuleggja og halda ballið ásamt okkur. Það er gríðarlega gott að fá þau inn í þetta enda öll með tölu einstaklega fagleg og flink,“ segir Halldór.
Mega hverjir sem er koma?
„Já, það er bara selt inn við hliðið. Það komast ekki nema 60 til 70 inn í húsið en við seljum inn við svæðið. Ég held að við höfum séð allt að 450 manns.“
Halldór segir alvöru sveitastemningu á Ögurhátíðinni.
„Við erum hálfgerðir sveitalúðar. Bara að sjá okkur er upplifun,“ segir hann og hlær. „Daginn áður er kaffihúsið með kæsta skötu, Þorláksmessa að sumri. Svo er barsvar um kvöldið og allskonar skemmtilegt. Á laugardeginum byrjum við klukkan tíu um morguninn með sögugöngu fyrir þá sem eru árrisulir. Hún endar klukkutíma seinna í Ögurkirkju með messu þar sem syndaaflausn er veitt fyrirfram. Prestur messar, það hefur oft verið séra Hjálmar Jónsson, fyrrverandi dómkirkjuprestur en hann er tengdapabbi minn. Í fyrra messaði séra Fjölnir Ásbjörnsson en hann er prestur í Bolungarvík, Flateyri og víðar á svæðinu. Svo bara er fólk að drífa að á fimmtudag, föstudag og mest á laugardeginum. Ballið er svo fram eftir nóttu. Þetta er ósköp einfalt en virðist vera mjög skemmtilegt,“ segir Halldór og bendir á að aldurinn á hátíðinni sé mjög blandaður.
Það fylgir því mikil ábyrgð að eiga næstum því 100 ára gamalt hús. „Þegar við erum búin að borga dyravörðum, gæslu og hljómsveit þá fer afraksturinn í að reka þetta gamla samkomuhús sem var byggt 1925 og halda því við. Við vorum í fjögurra milljóna króna framkvæmd í vetur, það var verið að skipta um gólf en það var orðið 97 ára gamalt og þoldi ekki fleiri böll. Allt var gert í samvinnu við húsafriðunarsjóð af því að húsið er metið vera menningarverðmæti þó það sé ekki orðið 100 ára. Við erum auðvitað alveg sammála því.“
Kaffihúsið opnaði 18. júní en þrjár vaskar konur reka það á sumrin. Þær kalla kaffihúsið Þjóðlegt með kaffinu og ekki að ástæðulausu. „Þær eru þrjár, Guðfinna og Jóna Símónía sagnfræðingar frá Ísafirði og svo kemur Bjarnþóra frá Reykjavík. Þær reka kaffihúsið með glæsibrag, alveg ofboðslega skemmtilegt kaffihús,“ segir Halldór og tekur fram að allt sé heimagert. Kaffihúsið er aðeins 50 metra frá veginum. Allir ættu því að geta komið við og fengið sér dýrindis hnallþórur, skonsur, súpur eða brauð.
„Fyrir utan kaffihúsið getur fólk bókað sig í kajakferðir hjá okkur. Við förum í styttri og lengri ferðir, alveg upp í fimm til átta daga ferðir um Djúp og Jökulfirði á kajökum. Þá getur leiðsögumaðurinn tekið sjö manns og við tökum tjöld og mat með,“ segir Halldór en hann fer sjálfur sem leiðsögumaður.
Halldór smitaðist af kajak-bakteríunni þegar hann flutti aftur vestur á fullorðinsárum en hann tók við starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar árið 1998. „Þá gekk ég í klúbbinn á Ísafirði, lærði á kajak og fór að fara í lengri ferðir í Jökulfirði og lærði þetta almennilega. Ég hætti 2010 sem bæjarstjóri og 2011 stofnuðum við Ögur Travel,“ segir Halldór sem fer líka með gönguhópa um svæðið.
Er ekki kalt á kajak?
„Fólk er vel búið fyrir lengri ferðir og er með fín tjöld. En jú, það getur verið kalt en ég hef ekki enn upplifað fimm eða átta daga ferð þar sem fólk hefur ekki viljað bæta við degi. Það er skelfingu lostið fyrstu tvo dagana og hugsar með sér: út í hvað erum við búin að koma okkur? Síðasta daginn vill fólk alltaf bæta við degi.“
Halldór á erfitt með að velja hvað er í uppáhaldi hjá honum á svæðinu. „Jökulfirðirnir eru einstakir. Það að róa meðfram Snæfjallaströndinni, gista undir Möngufossi með þetta þunga fosshljóð í eyrunum. Að fara í eyjarnar Æðey og Vigur, þetta er bara ótrúlegt. Ég er fæddur þarna og uppalinn og ég hugsa aldrei að ég hafi séð þetta áður,“ segir Halldór.