Álíka margar brottfarir og metárið 2018

Alls voru brottfarir erlendra farþega frá landinu 233 þúsund í …
Alls voru brottfarir erlendra farþega frá landinu 233 þúsund í júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir af hverjum fimm farþegum sem fóru frá landinu í júní voru Bandaríkjamenn. Alls voru brottfarir erlendra farþega frá landinu 233 þúsund og er um að ræða álíka margar brottfarir og mældust í júní metárið árið 2018. 

Í tilkynningu frá Ferðamálastofu kemur fram að brottfarir Íslendinga hafi verið um 55 þúsund, eða 77% af því sem þær mældust árið 2018 þegar mest var.

Flestar brottfarir í júní, um 101 þúsund talsins, voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, eða 43,3% af heild, en Bandaríkjamenn hafa verið stærsta þjóðernið í júnímánuði frá árinu 2011.

Brottfarir Þjóðverja voru í öðru sæti, tæplega 18 þúsund talsins, eða 7,6% af heild.

Brottfarir Pólverja voru í þriðja sæti, eða 7,0%, af heild og Bretar í því fjórða, eða 4,4% af heild. 

51% fjölgun frá áramótum 

Frá áramótum hafa um 953 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 51% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.

Brottfarir Íslendinga voru um 55.300 í júní, eða 16,1% færri en þær mældust í sama mánuði í fyrra. Mest hafa brottfarir Íslendinga mælst 71.200 í júnímánuði árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert