Elska góða tónlist og góðan bjór

Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

Einar Óskar Sigurðsson, er eigandi FLAKS á Patreksfirði ásamt eiginkonu sinni, Guðnýju Gígju Skjaldardóttur, en Einar lýsir FLAKI sem listhneigðu samkomuhúsi. Á FLAKI er boðið upp á meira bjórúrval en víðast hvar á landsbyggðinni og er gott að enda daginn þar eftir flakk um sunnanverða Vestfirði.

Þegar Einar og Gígja kynntust má segja að tveir vesturhlutar hafi mæst. Hann er úr Vesturbæ Reykjavíkur og hún af Vestfjörðum. „Ég er úr Vesturbænum og konan mín er uppalin á Patró en flutti í bæinn þegar hún var unglingur. Við fórum heim aftur í mars 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn hófst en við áttum hús þar,“ segir Einar.

Hvernig var fyrir þig sem borgarbarn og ferðamálafræðing að fara vestur?

„Það var æðislegt. Frábært að vera með lítil börn og gott að kúpla sig frá erlinum í borginni,“ segir Einar.

Gígja er tónlistarkona og er í hljómsveitinni Ylju en Einar er bæði ljósmyndari og ferðamálafræðingur. „Við leggjum mikið upp úr listum og menningarlífi. Okkur fannst vanta samkomustað fyrir menningu og listir á sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir Einar um ástæðu þess að þau stofnuðu FLAK.

Tónleikar á Flaki á Patreksfirði
Tónleikar á Flaki á Patreksfirði

Brugga eigin bjór

Húsið sem FLAK er rekið í á sér langa sögu. „Húsið er í eigu hafnarinnar og oft kallað verbúðin en hefur aldrei verið verbúð. Rýmið sem FLAK er í eru tveir beitningaskúrar. Eldhúsið hjá okkur var frystiklefi í öðrum beitningaskúrnum og hinn frystiklefinn er sýningarými og veitingarýmið eru skúrarnir sjálfir,“ segir Einar. Hann segir nafnið vísa í hafið og geti í raun bæði þýtt fiskflak eða bátsflak.

Hjónin eru miklir tónlistarunnendur og njóta þess að drekka góðan bjór. Þaðan er hugmyndin komin, að bjóða upp á hvort tveggja. „Þegar þú ferð út á land og ferð á flotta veitingastaði eða notalegt kaffihús er bjórúrvalið oft frekar einfalt. Ferðafólkið er ótrúlega þakklátt fyrir það þegar það kemur inn. Það á ekki von á því. Af hverju ekki að hafa gott úrval úti á landi? Það er aðeins meiri vinna fyrir okkur en miklu ánægðari viðskiptavinir fyrir vikið,“ segir Einar.

Undanfarin ár hafa hjónin í FLAKI boðið upp á fiskisúpu með ferskum fiski. Í súpunni hafa einnig verið söl og blóðberg og austurlensk krydd svo það mættti segja að súpan sé hvort tveggja í senn, asísk og rammíslensk. Í sumar verður hins vegar breyting á og ætla þau að láta góða drykki, tónlist og góða stemningu vera í aðalhlutverki um helgar. Heimabruggaður bjór verður áfram í boði, barsnarl og menningarviðburðir.

„Við bruggum annars vegar bjór sem heitir Flak sem er þurrhumlaður IPA-bjór. Þetta er léttur og góður bjór fyrir alla. Þú þarft ekki að vera sérstakur bjóráhugamaður til að geta drukkið hann. Hins vegar erum við að brugga „stout“-bjór. Það er dökkur bjór sem heitir Alda og er nefndur í höfuðið á eiginkonu uppáhaldsviðskiptavinar okkar og einnig hafinu. Þetta er tileinkað þeim tveimur. Við fórum í samstarf við uppáhaldsbrugghúsið okkar sem heitir Malbygg og er í Reykjavík og þróuðum uppskriftina með þeim. Bjórinn er aðeins fáanlegur á FLAKI.“

Rauðisandur eins og Spánn

„Patró er ótrúlega lítill og fallegur bær með verslunum, bíói, veitingastöðum og tjaldsvæði. Patreksfjörður er rólegur bær en best er að skella sér í skoðunarferð yfir daginn og enda hann svo á því að fara í sund og rölta niður á FLAK. Það er margt að sjá í nágrenninu. Það eru bæirnir Bíldudalur og Tálknafjörður. Svo erum við með Látrabjarg og Rauðasand og alveg ógrynni af heitum laugum. Ótrúlega falleg náttúra og ekki of mikið um að vera, nóg pláss fyrir alla,“ segir Einar. Hann segir seljast hratt upp á öll hótel en tjaldsvæðin eru falleg og góð. Hann mælir til dæmis með tjaldsvæðinu á Tálknafirði og segir alltaf gaman að koma í Flókalund.

„Rauðisandur er uppáhaldsstaður okkar fjölskyldunnar. Við eigum fjögur börn og þetta er bara svo ótrúlegur staður og skemmtilegt að ganga þar. Það er æðislegt að vera með börn á Rauðasandi og þar er líka uppáhaldstjaldsvæðið mitt. Ég get farið þangað með börnin í viku, þetta er eins og að vera á Spáni þegar veðrið er gott. Þau hlaupa út á sandinn og synda í sjónum. Það er líka kaffihús á Rauðasandi sem er geggjað. Þetta er staðurinn til að fara í stutta dagsferð frá Patró eða tjalda og vera lengi. Svo er æðislegt að fara yfir á Tálknafjörð og fara í Pollinn. Eða skella sér í náttúrulaugina í Reykjarfirði. Svo er hægt að skella sér upp á næstum því öll fjöll. Frá Patró getur þú gengið meðal annars upp á Geirseyrarmúla eða Kríuvötn,“ segir hann. Einar segir nóg um að vera á Patreksfirði og FLAKI í sumar. Bríet kom í annað sinn fram á FLAKI í byrjun júní. Hljómsveitin Brek kemur fram 27. júlí og Mugison heldur tónleika 6. ágúst svo eitthvað sé nefnt. Einar segir frítt inn á tónleika og með hjálp styrkja frá meðal annars Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og fyrirtækjunum í bænum er hægt að fá tónlistamenn til að koma langt að og spila.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert