Dýrasta sundferðin er í Reykjavík

Veðurblíða í Laugardalslaug.
Veðurblíða í Laugardalslaug. Ljósmynd/Sundlaugar.is

Undanfarnar tvær vikur hefur veðurblíðan glatt íbúa höfuðborgasvæðisins og hafa margir nýtt sólardagana í sundferð. Á höfuðborgarsvæðinu eru 18 sundlaugar sem allar hafa sinn sjarma, en sundferðin kostar hins vegar ekki jafn mikið í öllum laugunum. 

Samkvæmt gjaldskrá sundlauganna er ódýrstasta sundferðin í Álftaneslaug og Ásgarðslaug í Garðabænum, en þar kostar stakt gjald fyrir fullorðna 830 krónur. Þá er frítt í sund fyrir börn til 17 ára aldurs.

Næst ódýrasta sundferðin er í Lágafellslaug og Varmárlaug í Mosfellsbæ. Þar kostar stakt gjald fyrir fullorðna sléttar 1.000 krónur og frítt í sund fyrir börn til 10 ára aldurs, en börn á aldrinum 11 til 17 ára borga 175 krónur fyrir sundferðina. 

380 króna verðmunur á sundferðinni

Dýrasta sundferðin er svo í Reykjavíkurborg, en þar kostar stakt gjald fyrir fullorðna 1.210 krónur og er sundferðin því 380 krónum dýrari þar en í Garðabæ. Í Reykjavík er frítt fyrir börn til 16 ára aldurs að fara í sund, en ungmenni frá 16 til 17 ára aldri borga 195 krónur fyrir ferðina. 

Þá er einnig dýrast að leigja sundföt og handklæði í Reykjavík, en þar kostar leigja á sundfötum 1.080 krónur og handklæði 720 krónur. Á Seltjarnarnesi er ódýrast að leigja sundföt og handklæði, en þar er greitt 1.350 krónur fyrir sundföt og 1.500 krónur fyrir handklæði en þegar þeim er svo skilað inn eftir sundferðina fær fólk 1.000 krónur endurgreiddar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert