Sjáðu magnað sjónarspil af eldgosinu í miðnætursólinni

Ljósmyndarinn Arnar Freyr Tómasson upplifði ótrúlegt sjónarspil á gossvæðinu við …
Ljósmyndarinn Arnar Freyr Tómasson upplifði ótrúlegt sjónarspil á gossvæðinu við Litla-Hrút á dögunum. Samsett mynd

Á dögunum gekk ljósmyndarinn Arnar Freyr Tómasson níu kílómetra að gossvæðinu við Litla-Hrút að kvöldi til í von um að ná myndefni af eldgosinu í miðnætursólinni. Þegar þangað var komið blasti við honum ótrúlegt sjónarspil sem hann festi á filmu og hefur nú birt á Youtube-rás sinni. 

Blaðamaður ferðavefs mbl.is sló á þráðinn hjá Arnari Frey sem deildi upplifun sinni af gosinu.

Arnar Freyr lagði af stað frá Reykjavík ásamt félaga sínum klukkan rúmlega 20.30. „Við stoppuðum á bensínstöð og keyptum okkur smá nesti og vorum svo komnir að bílastæðinu við gossvæðið á Reykjanesskaga um klukkan 21.30,“ segir Arnar. 

„Þar hófst göngutúrinn að gosinu. Það var pínu vindur en gönguleiðin sjálf er mun auðveldari en að fyrri gosum hvað varðar veginn sjálfan, en gangan sjálf er þó lengri. Við gengum ansi rösklega þessa níu kílómetra, en það tók okkur einn og hálfan klukkutíma að komast að eldgosinu,“ bætir hann við. 

Alltaf jafn magnað að sjá eldgos með berum augum

Aðspurður segir Arnar Freyr upplifunina hafa verið magnaða. „Það er alltaf jafn mögnuð tilfinning að sjá eldgos með berum augum, finna kraftinn og hitann. Eini munurinn á þessu gosi og hinum tveimur er að maður sér kannski ekki alveg jafn vel ofan í gíginn sjálfan núna. En þá er gott að eiga dróna til að geta skoðað þetta vel og vandlega,“ segir hann.

„Ég var þvílíkt sáttur með myndefnið sem ég náði, en fallega birtan sem miðnætursólin gaf okkur var alveg hreint mögnuð,“ segir Arnar Freyr að lokum, en myndbandið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Athygli er vakin á því að lokað hefur verið fyrir gönguleið að gosstöðvum við Litla-Hrút fram á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert