17 milljónir horft á myndbönd Ásu af eldgosinu

Ferðaljósmyndarinn Ása Steinarsdóttir með eldgosið við Litla-Hrút í bakgrunni.
Ferðaljósmyndarinn Ása Steinarsdóttir með eldgosið við Litla-Hrút í bakgrunni. Ljósmynd/Ása Steinars

Ferðaljósmyndarinn Ása Steinarsdóttir var stödd á Höfn í Hornafirði og var nýkomin í sumarfrí þegar eldgos hófst við Litla-Hrút. Síðastliðna daga hefur Ása því verið önnum kafin við að ná myndefni af eldgosinu, en myndbönd hennar af gosinu hafa þegar fengið yfir 17 milljónir áhorfa á samfélagsmiðlum. 

Blaðamaður ferðavefs mbl.is sló á þráðinn hjá Ásu sem deildi upplifun sinni af gosinu á skemmtilegan máta. 

Þrátt fyrir mikla spennu segist Ása hafa tekið því rólega þegar hún frétti af gosinu, en hún fór ekki á staðinn fyrr en Almannavarnir höfðu gefið grænt ljós daginn eftir. „Við vorum frekar efins með að fara því vindáttin var mjög óhagstæð og reyknum blés beint á gönguleiðina. Við ákváðum að fara á fjallahjóli til að reyna að komast í gegnum reykinn eins hratt og við gátum, en þetta tók alveg á,“ segir Ása, en á tímabilum þurfti hún að setja upp gasgrímu vegna reyks og mengunar. 

Ása lýsir leiðinni að gosinu sem langri en þó nokkuð jafnsléttri. „Það er búið að setja lausamöl við slóðann þannig hjólin voru svolítið að spóla þar. Á tímabili vorum við að hjóla á sama hraða og göngufólk og hugsuðum út í að skilja hjólin eftir, en svo batnaði slóðin,“ segir Ása og bætir við að þau hafi þó þurft að ganga síðustu tvo kílómetrana. 

„Gönguleiðin er í suðri og voru aðstæður erfiðar vegna norðanáttar, en það var gífurlega mikill reykur og mengun á tímabilum. Ég var því frekar hissa að þeir skyldu opna gönguleið í suðri þegar það var norðanátt í viku. Fólk sem fer hægt yfir er ansi lengi í miðjum reyknum og við vitum ekki alveg hvaða langtímaáhrif það getur haft á heilsuna,“ segir Ása.

Ása segir leiðina til baka hafa verið mun auðveldari, en …
Ása segir leiðina til baka hafa verið mun auðveldari, en þá hafi þau verið með vindinn í bakið og verið mun sneggri yfir. „Í heildina þá var þetta ótrúlega skemmtilegt og tók vel á,“ segir hún. Ljósmynd/Ása Steinars

Ávanabindandi að upplifa eldgos 

Ása segist ætla að bíða róleg með að fara að gosstöðvunum gangandi aftur þar til þær verða opnaðar aftur, en hún fór hins vegar með þyrluflugi yfir gosið síðastliðinn fimmtudag og lýsir því sem magnaðri upplifun. 

„Við flugum yfir nýja gosið og líka tvö síðustu gos þar sem við sáum eftirstöðvar þess. Þegar við flugum yfir gosið fundum við hitann inn í þyrluna. Við sáum líka fólk á gosstöðvunum sem hafði greinilega farið þrátt fyrir að það væri lokað,“ segir hún. 

Ása viðurkennir að það geti hreinlega verið ábanabindandi að fara og upplifa eldgos með berum augum og þykir líklegt að hún væri búin að fara oftar að gosinu ef það væri opið. „Í síðustu gosum urðu miklar og hraðar breytingar, en það var eins og maður væri að sjá nýtt gos í hvert sinn þar sem gígurinn og sprungurnar voru alltaf að breytast,“ útskýrir Ása.

„Ég er að vona að við sem erum að skrásetja þennan atburð með ljósmyndum og myndböndum fáum auðveldara aðgengi að gosinu. Ég veit að einhverjir ljósmyndarar eru komnir með passa til að keyra þangað og ég er að skoða það,“ bætir hún við. 

Ása segir það líklega ekki vera raunhæft að fara jafn …
Ása segir það líklega ekki vera raunhæft að fara jafn oft að þessu gosi og síðustu gosum þar sem gangan sé mun lengri og mikið af reyk og mengun á leiðinni. Ljósmynd/Ása Steinars

„Eins og það sé smá titringur í jörðinni“

Aðspurð segir Ása eldgosið við Litla-Hrút frábrugðið fyrri gosum þar sem nú sé það á gróinni hraunbreiðu sem liggur á jafnsléttu. „Þegar við nálguðumst gosið þá fundum við líka öll fyrir kraftinum – það er eins og það sé smá titringur í jörðinni. Við settum eyrað upp að jörðinni og maður fann alveg fyrir drununum. Það er í raun erfitt að lýsa því en ég man ekki eftir þessari tilfinningu með hin gosin,“ segir hún.

„Það er líka erfiðara að sjá þetta gos með berum augum vegna gróðurelda sem mynda einskonar hring í kringum gosið og búa til þennan svakalega reyk sem gerir það að verkum að maður sér frekar reykinn en gosið sjálft. Það er eflaust ástæðan fyrir því að fólk hefur verið að labba svona mikið nær og þvera í gegnum þessa elda,“ bætir hún við.

Hér sést reykurinn sem umlykur gosið vel.
Hér sést reykurinn sem umlykur gosið vel. Ljósmynd/Ása Steinars

Eldgosin kostnaðarsöm upp á búnað

Ása segir það vera mjög skemmtilegt að vera ljósmyndari og tökumaður á tímum eldgoss. Hún missti af gosinu síðasta sumar þar sem hún var erlendis í verkefnum sem segist þó klárlega vera farin að læra betur inn á hvernig eigi að mynda eldgos. „Maður er líka farinn að læra hvenær maður er að fara of nálægt gosinu með drónann svo hann hreinlega bráðnar. Þessi eldgos hafa verið frekar kostnaðarsöm upp á búnað,“ segir hún.

Að sögn Ásu er gríðarleg eftirspurn eftir myndefni af gosinu. „Reuters er búið að hafa samband við mig og svo hefur Instagram-síða sem heitir Pubity deilt efninu mínu, en þau eru með 33 milljónir fylgjenda og eru alltaf að biðja um meira efni,“ segir hún.

„Samfélagsmiðlar eru líka bara nýjir fjölmiðlar á marga vegu og …
„Samfélagsmiðlar eru líka bara nýjir fjölmiðlar á marga vegu og minn fylgjendahópur situr spenntur og bíður eftir meira efni og fréttum frá gosinu og lífinu á Íslandi.“ Ljósmynd/Ása Steinars

Áhugi á gosinu hefur því verið mikill erlendis, en Ása segir marga erlenda ljósmyndara hafa bókað flug beint til Íslands eftir að fréttir bárust af gosinu. Þá hafi ljósmyndararnir þó lent í nokkrum lokunum og erfiðum aðstæðum til að mynda í.

Ása segist finna fyrir auknu áhorfi í kjölfar eldgossins sem hafi bæði aukið fylgi hennar og tekjur. Frá því gosið hófst hefur Ása fengið yfir 20 þúsund nýja fylgjendur á samfélagsmiðlum um leið og verkefnin hrannast inn. 

„Ég reyni að einbeita mér bæði að landslagsljósmyndun en sýni líka mannlegu hliðarnar af gosinu, en ég sýni frá mínu daglega lífi og minni upplifun við gosið. Ég er að skjóta nokkur verkefni við gosið og er líka eini kvenkyns drónaflugmaður í heimi sem vinnur formlega fyrir DJI drónafyrirtæki, þannig þeir vilja að sjálfsögðu hafa mig á svæðinu og fá drónaefni,“ segir Ása.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert