Féllu kylliflöt fyrir Seyðisfirði

Hjónin Sigríður og Ingvi.
Hjónin Sigríður og Ingvi.

Hjónin Ingvi Örn Þorsteinsson og Sigríður Rún Tryggvadóttir voru mikil borgarbörn áður en þau fluttu austur á Seyðisfjörð fyrir tíu árum þegar Sigríður var valin prestur í Egilsstaðaprestakalli. Þau eru ekkert á förum og hafa tengst samfélaginu og náttúrunni órjúfanlegum böndum.

„Það var mjög mikil breyting að flytja. Við vorum bæði í krefjandi störfum í Reykjavík og eigum fjögur börn þannig að það þurfti að púsla dálítið og yfirleitt fór tíminn frá 5-7 í borginni í skutl og Bónusferðir. Það var smá áskorun að flytja í bæ þar sem við höfðum ekkert bakland og þekktum fáa en það var tekið mjög vel á móti okkur,“ segja hjónin sem komust fljótlega að því að gamlir vinir bjuggu í bænum. Dýrmætur tími eftir vinnu og skóla nýttist sem fjölskyldustundir á Seyðisfirði.

Einfaldleiki hversdagsins, fólkið og nálægðin við fjöllin og náttúruna er meðal þess sem þau kunna að meta fyrir austan. „Það er náttúrlega alveg geggjað að geta stundað útivist og fjallgöngur í bakgarðinum. Við getum labbað frá húsinu okkar og verið komin upp í fjall eftir nokkrar mínútur. Eins búum við í miklum matar- og menningarbæ þannig að það er næstum alltaf eitthvað að gerast. Hér eru frábærir veitingastaðir. Reglulega eru áhugaverðar listasýningar, tónleikar og fleira. Eins erum við bæði í vinnu sem er mjög skemmtileg,“ segia þau.

Þau borða mat úr heimabyggð. „Við tínum ber og sveppi, veiðum bleikju í Fjarðaránni og förum einu sinni til tvisvar á sumri á sjóstöng úti í firði og fyllum á kistuna. Eins erum við dugleg að kaupa staðbundna matvöru. Kaupum alltaf grafna gæs og fleira á mörkuðum eins og haustroða og barra. Við erum mjög hrifin af villibráð, sérstaklega hreindýri og gæs, og eigum alltaf „hot sauce“ og sinnep frá Lefever í ísskápnum.“

Sigríður og Ingvi ásamt börnum og barnabarni fyrir framan prestssetrið …
Sigríður og Ingvi ásamt börnum og barnabarni fyrir framan prestssetrið á Seyðisfirði, Framnes.

Þéttsetið í sveitakirkjum á sumrin

„Prestsstarfið er fjölbreytt, alltaf mikið að gera og dagarnir geta verið mjög misjafnir og óútreiknanlegir. Það er yndislegt að þjóna í Egilsstaðaprestakalli, svæðið er stórt, fjórtán sóknir frá Möðrudal á Fjöllum, allt Héraðið, Úthérað, Borgarfjörður og Seyðisfjörður. Ég hef sérstakar skyldur við Seyðisfjarðarsókn og þar búum við. Í sóknarnefndarfólki, organistum og kórum er fólginn mikill mannauður og samstarfsfólkið er eðal,“ segir Sigríður.

Hefur þú messað á óvenjulegum eða fáförnum stöðum?

„Á sumrin messum við meira í litlu sveitakirkjunum, þær eru margar og fallegar og það eru alltaf mjög góðar og vel sóttar stundir. Þó að sóknin i Möðrudal sé fámennust er alltaf nokkuð um athafnir þar. Ég hef líka verið með fermingu í Kverkfjöllum. Sumarið notum við einnig til að brjóta hefðbundið helgihald upp og erum með útimessur og göngumessur. Einu sinni á ári, um miðjan júlí, er messað í Klyppstaðarkirkju í Loðmundarfirði. Þar hefur enginn búið frá 1974 og fáir í langan tíma áður. Í þeim messum eru kirkjubekkirnir alltaf þéttsetnir og margir þurfa að standa úti. Stundum er það göngufólk sem óvart rekst inn, en flestir keyra þennan molduga malarveg gagngert til að sækja þessa messu. Bakkasystur, kirkjukórinn frá Borgarfirði, hafa séð um sönginn undanfarin ár og hvergi bragðast messukaffið betur en í Lommanum, um það sjá yndislegar konur frá Borgarfirði og Egilsstöðum. Það eru algjörar töfrastundir.“

Fjölskyldan fer reglulega í ferðir í Loðmundarfjörð. Þau láta þokuna …
Fjölskyldan fer reglulega í ferðir í Loðmundarfjörð. Þau láta þokuna ekki stoppa sig.

En að aðeins vinsælli kirkju. Kirkjan á Seyðisfirði er ein mest myndaða kirkja landsins, hefur það áhrif á prestsstarfið og lífið í bænum almennt?

„Seyðfirðingum þykir vænt um kirkjuna sína og hún er eitt þekktasta kennileiti bæjarins. Það hefur ekki beint áhrif á starfið þannig séð. Helgihaldið og safnaðarstarfið hefur sinn gang óháð ferðamönnunum. Það kemur þó iðulega fyrir að ég sný mér frá altarinu í upphafi athafnar og allt einu eru öftustu bekkirnir fullir af ferðamönnum í gönguklossum og goretex, eða eins stökkum af einhverju skemmtiferðaskipi. En það er bara gaman. Fyrir kórónuveirufaraldurinn var nokkuð um að erlend pör bæðu um hjónavígslu í kirkjunni eða á Regnbogagötunni. Það hefur ekki verið mikið um það núna. Mikill fjöldi ferðamanna hefur bæði kosti og galla, suma daga líður bæjarbúum eins og þeir séu hluti af leikmynd en það er líka atvinnuskapandi og margir hafa sitt lífsviðurværi af ferðaþjónustu.“

Ævintýramenn sem láta drauminn rætast

Ingvi er hönnuður og starfar sem verkefnastjóri hjá Austurbrú. Ævintýraáhugi Ingva byrjaði af alvöru fyrir austan og nú er hann að klára annað ár í fjallamennskunámi FAS og að stofna eigið ferðaþjónustufyrirtæki.

„Við vorum alls ekki mikið útivistarfólk áður en við fluttum austur. Ég var tiltölulega nýbyrjaður að stunda stangveiði og hef alltaf hjólað mikið en það var meira innanbæjar og til að komast á milli staða. Eftir að við fluttum austur fóru fjöllin að kalla og við byrjuðum að fara í stuttar göngur upp í Vestdal, Fjarðarsel og Botna. Með því jókst áhuginn og við fórum að ganga meira. Eins fór ég mikið með strákana okkar á skíðasvæðið í Stafdal sem er eitt skemmtilegasta skíðasvæði sem ég veit um. Svo kom kórónuveirufaraldurinn og öllu lokað, þá fórum við nokkrir strákar að ganga á fjöllin í kring til að geta rennt okkur. Ég held að við það hafi áhuginn á fjallamennsku komið fyrir alvöru. Í dag veit ég fátt skemmtilegra en að stunda útivist, ganga á fjöll eða jökla, fara á snjóbretti, gönguskíði og út að hjóla,“ segir Ingvi.

Tryggvi, yngsti sonurinn, hjólar hér í Skálanesi
Tryggvi, yngsti sonurinn, hjólar hér í Skálanesi

Eiginkona hans er rólegri. „Ég get varla haldið því fram að ég sé útivistarmanneskja. Mér finnst gott að vera úti, liggja í mosa og naga strá, það er ein skilvirkasta leiðin til heilunar og endurnæringar, það er svo gott að tengjast almættinu í náttúrunni,“ segir Sigríður.

Ingvi segir fjallamennskunámið hafa verið skemmtilegra en hann hafði getað ímyndað sér.

„Ég var búinn að vera að fylgjast aðeins með því hvað þau voru að kenna á Instagram og gat ekki annað en sótt um. Svo mætti ég í fyrsta áfangann í skólanum sem var klettaklifur sem ég hafði aldrei komið nálægt og er lofthræddur þannig að það var dálítið mikil áskorun. Ég var ekki alveg að kaupa þetta klifur til að byrja með og sá ekki fyrir mér að það væri eitthvað sem ég væri að fara að stunda en núna fer ég reglulega að klifra, finnst það mjög gaman og verð vonandi góður í því einhvern tímann. Eins fór ég á jökul í fyrsta skipti í náminu og það var alveg mögnuð upplifun – eiginlega alveg ótrúlegt að það sé ekki algengara að Íslendingar ferðist um jökla, þetta er allt annar heimur og aðgengið hérna á Íslandi er ótrúlega gott. Námið gengur út á að læra að leiðsegja og ferðast um fjalllendi og jökla á ábyrgan hátt og að geta bjargað sér. Eins lærum við grunn í fjallaskíðum, tökum snjóflóðanámskeið og gátum valið námskeið á fjallahjólum og kajak sem var mjög gaman.“

Ingvi og Dušky vinur hans byrjuðu síðasta sumar að tala um að stofna ferðaþjónustufyrirtæki sem myndi bjóða upp á ævintýraferðir í firðinum. Nýlega bættist þriðji félaginn, Michael, í hópinn.

„Við eigum það allir sameiginlegt að hafa komið hingað á Seyðisfjörð og fundið einhverja magnaða tengingu við fjörðinn og viljum hvergi annars staðar búa, urðum strax ofsalega miklir Seyðfirðingar þótt við höfum ekki átt neinar tengingar hingað áður. Eins erum við allir miklir ævintýramenn og mjög hrifnir af svæðinu hérna í kringum okkur. Það er margt í boði hérna en það hefur verið vöntun á þjónustu eins og þeirri sem við ætlum að bjóða upp á. Við komum til með að byrja á að bjóða upp á gönguferðir og hjólaferðir og síðar meir fjallaskíða- og „splitboard“-ferðir og ferðaskíðatúra. Svo er aldrei að vita hvað fleira okkur dettur í hug að gera. Við erum að vinna að vöruþróun þessa dagana og búa til kynningarefni og munum opna heimasíðu og byrja að kynna fyrirtækið í haust. Við stefnum að því að bjóða upp á ferðir allt árið þar sem við trúum því að það séu mikil tækifæri í vetrarferðamennsku á Austurlandi.“

Á göngu.
Á göngu.

Ekkert sem stenst samanburð við gott austurlenskt sumar

Hvað gerið þið þegar þið viljið aðeins komast út í náttúruna?

„Staðirnir sem við sækjum oftast eru hérna í firðinum. Vestdalur, Fjarðarsel og Botnarnir eru kannski staðirnir sem við sækjum oftast yfir sumartímann. Á veturna erum við mikið í Stafdal. Eins keyrum við öðru hverju út með firði, förum út að Selstöðum eða alla leið í Brimnes eða Skálanes. Svo langar okkur náttúrlega alltaf í Lommann (Loðmundarfjörð).“

Eigið þið uppáhaldsgönguleið?

„Ætli Loðmundarfjörður sé ekki einn af okkar uppáhaldsstöðum og gönguleiðin þangað er mjög skemmtileg. Eins er Stórurð í miklu uppáhaldi og gönguleiðin í Stapavík. Það er mjög þægileg leið og ótrúlega falleg. Svo finnst okkur geggjað að fara upp í Vestdal og labba um þar, horfa á fossana og heimsækja álfana.“

Hvað ætlið þið að gera skemmtilegt í sumar á Austurlandi?

„Við höldum að veðrið verði best á Austurlandi og það er ekkert sem stenst samanburð við gott austurlenskt sumar. Það koma örugglega góðir gestir til okkar og við sýnum þeim uppáhaldsperlurnar okkar. Við ætlum svo að fara í Loðmundarfjörð með frábærum hópi í haust, fjölskyldunni og svokallaðri sparifjölskyldu. Loðmundarfjörður er einn af okkar uppáhaldsstöðum og okkur líður hvergi betur, það er líka svo gaman að krakkarnir elska að vera þar líka, þótt það sé ekkert net – eða kannski þess vegna. Eins erum við að hugsa um að fara á Gerpissvæðið og ganga þar, það er mjög spennandi svæði sem okkur langar til að kynnast. Eins er ferð á Snæfell í pípunum. Alveg kominn tími á okkur að heimsækja konung íslenskra fjalla. Svo ætla Ingvi og Tryggvi yngsti sonur okkar að fara í fjallahjólaferð í byrjun júlí. Prófa fjallahjólaleiðirnar sem Fjord Bikes hafa verið að búa til á Borgarfirði eystri, hjóla leiðirnar í Hallormsstaðaskógi og inn í Fljótsdal. Við erum mjög spenntir fyrir þeirri ferð. Stefnum á um viku tjaldferðalag með hjólin og prófa þessar spennandi fjallahjólaleiðir sem er búið að hanna hérna fyrir austan,“ segja prestshjónin á Seyðisfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert