Góðir gestgjafar hleypt af stokkunum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, og …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, og Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri opnuðu vefsíðu verkefnisins. Ljósmynd/Aðsend

Verkefninu Góðir gestgjafar var hleypt af stokkunum á veitingastaðnum Önnu Jónu í Tryggvagötu í gær. 

Samtök ferðaþjónustunnar, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Ferðamálastofa, Íslenski ferðaklasinn og áfangastaðastofur landshlutanna standa að baki verkefninu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, og Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri opnuðu vefsíðu verkefnisins og birtu sín póstkort á samfélagsmiðlum.

Á vefsíðunni býðst fólki og fyrirtækjum að taka þátt í gestgjafaheiti og búa til póstkort til að deila á samfélagsmiðlum með mynd og skilaboðum frá eigin hjarta um jákvæð áhrif ferðaþjónustu á þau sjálf, nærsamfélögin eða samfélagið í heild.

Hvatning til landsmanna

Í tilkynningu segir að verkefnið eigi að vera hvatning til landsmanna um að njóta þess mikilvæga hlutverks að vera gestgjafar og þeirra margvíslegu gæða sem því fylgja.

„Gestrisni þjóðarinnar er stór þáttur í góðri upplifun ferðamanna á Íslandi og saman erum við hluti af verðmætustu stundum fólks á ferðalagi. Við tökum vel á móti gestum sem sækja okkur heim og njótum á ýmsan hátt verðmæta sem þeir skilja eftir hér á landi. Í stað þess að flytja út fisk eða aðrar hefðbundnar vörur þá flytur ferðaþjónustan út gestrisni þjóðarinnar, sem svo skilar sér margfalt í afar fjölbreyttum ávinningi af góðum gestum okkar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert