Löng helgi á Austurlandi

Vök Baths hlaut nýsköpyunarverðlaun ferðaþjónustunnar 2022.
Vök Baths hlaut nýsköpyunarverðlaun ferðaþjónustunnar 2022.

Það er alltaf gott veður á Austurlandi, í minningunni að minnsta kosti. Ein löng helgi er auðvitað ekki nóg en ef tíminn er ekki meiri þá eru þetta staðir sem þú mátt ekki missa af.

Dagur 1

Stuðlagil Ef þú hefur ekki skoðað Stuðlagil þá er kominn tími til þess að heimsækja þessa stórmerkilegu náttúruperlu. Það er um að gera að gefa sér góðan tíma og ganga niður í gilið. Það er hins vegar ekki fyrir þá allra lofthræddustu.

Vök Baths Vök Baths eru heitar náttúrulaugar sem eru staðsettar á bökkum Urriðavatns við Egilsstaði. Þegar of heitt verður í pottunum er hægt að stökkva út í vatnið og kæla sig. Gott er að byrja skemmtilegt kvöld í baðlóninu, fá sér drykk í Vök Baths og fara síðan út að borða.

Út að borða á Nielsen Þegar gera á vel við sig er veitingahúsið Nielsen sérstaklega góður kostur. Hjónin Kári Þorsteinsson og Sólveig Edda Bjarnadóttir reka veitingahúsið í gullfallegu húsi. Kári, sem áður var yfirkokkur á Dill, matreiðir hráefni af svæðinu og er hægt að mæla með því að fara í óvissuferð á Nielsen.

Stuðlagil er orðið landsfrægt fyrir fegurð sína.
Stuðlagil er orðið landsfrægt fyrir fegurð sína.

Dagur 2

Hallormsstaðaskógur Hvernig væri að byrja daginn á því að fara í gönguferð um Hallormsstaðaskóg? Ef veðrið leikur við gesti er hægt að mæla með því að stinga sér til sunds með orminum góða. Ef veðrið er óhagstætt er hægt að leita skjóls inni í skóginum sem er sá stærsti á landinu. Þar er að finna fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir.

Vallanes Eftir góða útiveru er tilvalið að kíkja í Vallanes og næra sig. Ekki er hægt að fara tómhentur heim frá Vallanesi og er tilvalið að kippa með sér góðu arfapestói eða aðalbláberjasultu með sér.

Kárahnjúkavirkjun Óhætt er að mæla með því að bruna upp að Kárahnjúkavirkjun. Vegirnir eru góðir og venjulegir smábílar komast óvíða eins greiðlega upp á hálendið. Stíflan er tilkomumikil en á sama tíma ógnvænlegt mannvirki. Hvort sem fólk kann að meta virkjunina eða ekki þá er sjón sögu ríkari.

Hallormsstaðaskógur.
Hallormsstaðaskógur.

Dagur 3

Skriðuklaustur Það er forvitnilegt fyrir alla bókmenntaunnendur sem og áhugafólk um sögu lands og þjóðar að skoða stórmerkilegt hús Gunnars Gunnarssonar rithöfundar. Á Skriðuklaustri er hægt að forvitnast um líf Gunnars og sögu Skriðuklausturs. Nauðsynlegt er að ljúka heimsókninni á því að gæða sér á veitingum af gómsætu hlaðborði Klausturskaffis þar sem meðal annars dýrindis hreindýrabollur eru í boði.

Óbyggðasetur Íslands Eftir góða máltíð í Klausturskaffi er tilvalið að halda áfram og skoða Óbyggðasetur Íslands. Skemmtilegt er að upplifa lifandi sýningu Óbyggðasetursins um ævintýri óbyggðanna. Einnig er að finna þar fjölda spennandi gönguleiða. Dæmi um styttri göngu er eyðibýlagangan sem liggur inn með ánni að endurgerðum kláf sem gestum er velkomið að prófa.

Skriðuklaustur.
Skriðuklaustur. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka