María er nýkomin heim úr keppnisferð til Afríku

María Ögn Guðmundsdóttir tók nýverið þátt í 650 km hjólreiðakeppni …
María Ögn Guðmundsdóttir tók nýverið þátt í 650 km hjólreiðakeppni í Afríku. Samsett mynd

María Ögn Guðmundsdóttir er atvinnukona í hjólreiðum, en hún fór nýverið til Kenýa í Afríku þar sem hún tók þátt í þekktri hjólreiðakeppni og hafnaði í þriðja sæti. María er gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Einmitt í umsjón Einars Bárðarsonar.

María hjólar fyrir franskt keppnislið í gravel-hjólreiðum. Hún og liðið eru ekki bara keppnislið heldur fulltrúar þess á ýmsum vettvangi og heitir liðið í höfuðið á aðal kostandanum, franska tískuhjólafata framleiðandanum Cafe De Cyclist. 

Áður en liðið var sett saman hafði María verið fyrirsæta og fulltrúi Cafe De Cyclist í keppnum víða um heim sem einstaklingur. „Svo ákváðu þau að setja saman lið og byrjuðu á því að ráða mig og sögðu svo að nú þyrftu þau að finna eina ameríska Maríu og eina evrópska Maríu,“ segir María og hlær.

Sigursælasta hjólreiðakona síðasta áratugar á Íslandi

María var sigursælasta hjólreiðakona landsins síðasta áratuginn, en hún datt inn í sportið í kringum 2009 og var nánast ósigrandi næstu átta til tíu árin.

Þá fór María meira yfir í þjálfun og að sinna öðrum hugðarefnum tengt íþróttinni og dróst þannig inn í fyrirsætustörf fyrir franska tískuhjólafata framleiðandann. Þá hafði hún einnig verið að sinna hjólaþjálfun með sambýlismanni sínum, Hafsteini Ægi Geirssyni, sem á ekki síðri feril að baki í hjólreiðum og ennþá á fullu í íþróttinni eins og María. 

Þriðja sæti í 650 km keppni í Afríku

„Núna er ég ekki eins þyrst í sigra, ég hjóla bara af því að mér finnst það svo gaman og ég æfi bara svolítið í takt við hvernig mér líður og hvað mig langar.“

Í lok júní tók María þátt í mjög erfiðri og þekktri hjólreiðakeppni, Migration Gravel Race, í Afríku, en keppnin er fjórar dagleiðir í gegnum slétturnar í Kenýu. Hún gerði sér lítið fyrir og hjólaði sig á pall en hún endaði í þriðja sæti í keppninni. Færri fá að taka þátt en vilja og lítur keppnin ströngum reglum um álag á innviði, bæði náttúrulega og félagslega, og því eingöngu um 120 keppendur sem komast að ár hvert. María segir keppnina hafa verið gríðarlega mikla upplifun og segir viðmót og lífsviðhorf íbúa svæðisins hafa haft mikil áhrif á sig.

Fyrirsæta á fimmtugsaldri með sand á milli tannanna

María er 43 ára og segist hafa byrjað á því að spyrja fulltrúa franska liðsins hvort þau vissu ekki hvað hún væri gömul. „Stelpurnar sem eru með mér í liðinu eiga ekki börn og þær kalla mig Mamma María.”

María talar líka um það hvað það eru mikil forréttindi að geta ferðast um allan heim með skemmtilegu fólki og unnið við það að hjóla. Um leið og þetta sé mikið ævintýri þá sé framtíðin alltaf svolítið óljós. „Þetta er náttúrulega alveg geggjað en stundum spyr maður sig hvort maður þurfi ekki að fara að verða fullorðin. Hvort það sé endalaust hægt að vera úti að djöflast, drullug upp fyrir haus með sand á milli tannana.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka