Helga Margrét Friðriksdóttir er framkvæmdastjóri Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi. Henni finnst tilvalið að tengja saman sögu og ferðalög. Það er hægt að gera á ýmsa vegu, til dæmis með því að heimsækja Landnámssetrið, en líka með því að hlusta á áhugaverða þætti í bílnum. Það gerði hún með fjölskyldunni á ferðalagi um Vestfirði fyrir nokkrum árum.
„Ég flutti í Borgarfjörðinn árið 2012 þegar ég fór í nám á Háskólanum á Bifröst. Þar féll ég fyrir Borgarfirðinum og áttaði mig fljótt á því að ég vildi ekki fara aftur í atið í bænum. Við fluttum svo í Borgarnes 2017 þegar við keyptum okkur hús þar eftir að hafa verið í Stafholtstungunum í tvö ár þar sem var dásamlegt að búa og fyrir mig borgarbarnið að kynnast því að búa í sveit,“ segir Helga Margrét.
Hún segir sumarið mjög annasamt á Landnámssetrinu.
„Við erum strax farin að finna fyrir því hvað þetta sumar verður stórt. Hér erum við með stórskemmtilegar sýningar um landnámið og svo Egils sögu þar sem fólk getur kynnt sér sögu lands og þjóðar á einni klukkustund. Þetta er hljóðleiðsögn hjá okkur og við bjóðum upp á 15 tungumál og svo barnaleiðsögn á íslensku. Þá erum við með veitingastað þar sem er eitthvað fyrir alla í boði. Hollustuhádegishlaðborðið okkar er gríðarlega vinsælt, en þar bjóðum við úrval af alls konar grænmetis- og pastaréttum ásamt grænmetissúpu á hverjum degi. Þá er ratleikurinn okkar alltaf að verða vinsælli en hann er sérstaklega vinsæll hjá fyrirtækjum og félagasamtökum sem hópefli. Þá er farið vítt og breitt um Borgarnes og spurningum svarað. Hópurinn uppsker fyrsta flokks skemmtun og samhristing á sama tíma.“
Hvað er gefandi við starfið þitt?
„Allt, þetta er svo svakalega fjölbreytt og skemmtilegt. Maður er manns gaman og það er svo sannarlega margt um manninn í þessu starfi. Ég held að þetta starf virki mjög vel fyrir fólk eins og mig sem þarf ekki að hafa lífið í föstum skorðum og hið óvænta er boðið velkomið.“
Hvað er annað skemmtilegt að gera í Borgarnesi?
„Bjössaróló stendur alltaf fyrir sínu og sundlaugin en ég mæli líka með gönguferð meðfram sjónum með viðkomu í Skallagrímsgarði.“
Skoðar þú aðallega náttúruna eða líka söguna þegar þú ferðast um landið?
„Við höfum verið dugleg að tengja staði sem við heimsækjum við atburði í sögunni og höfum reynt að miðla því til barnanna okkar. Það er sérstaklega minnisstætt þegar við tókum Vestfirðina 2020 en á leiðinni hlustuðum við á Útkallsþættina sem fjölluðu um það þegar áhöfn á breskum togara var bjargað við Látrabjarg. Það er svo áhrifaríkt að hlusta og sjá svo hvar þetta gerðist og upplifa vegalengdirnar. Þetta verður eitthvað svo svakalegt. En krakkarnir tala mikið um þetta í bland við það að við settum okkur það markmið að prófa alla náttúrulaugar sem urðu á vegi okkar. Það vakti mikla lukku þó það hafi verið komin smá þreyta í mannskapinn þegar við klukkuðum þrjár laugar á einum degi. Þá hef ég einnig reynt að vera dugleg að tengja Íslendingasögurnar við staði en ég held að það sé mikilvægur grunnur svo hægt sé að kveikja áhuga.“
Hvar er best að skella sér í sund á Vesturlandi?
„Sundlaugin í Borgarnesi er náttúrlega efst á listanum. Svo erum við komin með fjölbreytt úrval af baðstöðum fyrir þá sem vilja hafa það extra gott og þá er það Krauma, Giljaböðin og svo er nýlega búið að taka í gegn sundlaugina á Húsafelli sem er orðin mjög flott. Guðlaug á Akranesi er líka alltaf mjög skemmtileg og gaman að fara með krakka á ströndina þegar sólin lætur sjá sig.“
Hvernig myndi draumadagurinn þinn líta út?
„Ég myndi vakna eftir að minnsta kosti átta tíma svefn, fá mér dásamlegan kaffibolla á Landnámssetrinu, já ég geri mér líka ferð um helgar. Ég er algjör koffínfíkill en ég helli nánast aldrei upp á kaffi heima hjá mér. Annars eru allir dagar góðir sem innhalda góðan félagsskap og gleði.“
Hefur þú farið í skemmtilega göngu á Vesturlandi?
„Síldarmannagötur er frábær gönguleið sem ég get hiklaust mælt með, dásamleg dagleið umvafin fallegri náttúru. Frekar auðveld ganga sem ætti að henta flestum. Svo er Hafnarfjallið alltaf skemmtilegt.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Vesturlandi?
„Bifröst, ekki spurning. Sérstaklega á haustin þegar haustlitirnir láta sjá sig i hrauninu, þá er fátt betra en að koma sér vel fyrir í einhverjum móa og tína ber beint upp í sig. Svo er alltaf einhver rómantík yfir Varmalandi en eldri stelpan mín var þar í fyrsta bekk og svo héldum við brúðkaupsveisluna okkar þar. Það er gaman að leika sér í skóginum og þar er líka tjaldstæði þannig að ég mæli hiklaust með útilegu þangað í sumar.“
Veistu um leynda perlu í nágrenninu?
„Það er með þessar leyndu perlur, maður veit aldrei hvað má segja og hvað ekki. En það er staður í Jafnaskarðsskógi sem allavega Bifrestingar kalla Guðjónslund. Dásamlegur staður sem er algjör perla þegar sólin skín. Þangað er gaman að fara með sundföt og nesti. Ég veit ekki hversu ábyrgt er að segja frá þessu en það er klettur þarna sem er gaman að stökkva fram af í vatnið. Það er fátt sem toppar lautarferðir þar sem maður fær að sulla og vaða, það vex enginn upp úr því.“
Hefur þú tíma til þess að fara í frí í sumar?
„Það er nauðsynlegt fyrir alla að fara í smá frí og ég er engin undantekning á því. Ég og maðurinn minn vorum að kaupa okkur bústað hérna í Borgarfirðinum sem við ætlum að dunda okkur við að gera upp í sumar. Dunda okkur við segi ég en að dunda sér er ekki til í orðaforða mannsins míns. Þannig að ég hugsa að við tökum áhlaup á hann og njótum þess að verja tíma með börnunum okkar í honum í sumar. Þá er elsta stelpan okkar að fermast núna fyrstu helgina í júlí. Hún býr á Egilsstöðum, þannig að við ætlum að skella okkur austur og njóta þess að vera öll saman að undirbúa ferminguna og sleikja sólina sem er víst fyrir austan. Einnig var búið að lofa Danmerkurferð þetta sumarið og það þarf að finna góðan tíma fyrir hana. En ég verð seint þekkt fyrir það að skipuleggja mig langt fram í tímann, þetta er meira svona eigum við að skella okkur núna og svo er lagt í hann,“ segir Helga Margrét sem sér fram á annasamt og spennandi sumar.