Hallgrímskirkja í hópi bestu útsýnisbygginga í heimi

Hallgrímskirkja er í hópi 10 bestu útsýnisbygginga heims.
Hallgrímskirkja er í hópi 10 bestu útsýnisbygginga heims. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýverið birtist listi yfir tíu bestu útsýnisbyggingar í heimi, en á listanum eru heimsfrægar byggingar á borð við Eiffelturninn í París, Empire State-bygginguna í New York-borg og London Eye í Lundúnum. Listann prýðir þó einnig hin glæsilega Hallgrímskirkja í miðbæ Reykjavíkur. 

Við gerð listans greindu byggingarsérfræðingar hjá Buildworld umsagnir á vef TripAdvisor um vinsælustu byggingar og mannvirki heims, en þeir skoðuðu hversu oft notendur minntust á „fallegt útsýni“ í umsögnum sínum um byggingarnar. 

Niðurstöður leiddu í ljós að Hallgrímskirkja væri sjötta besta útsýnisbygging í heimi og sú fjórða besta í Evrópu. Á TripAdvisor voru 3.013 ummæli um fallegt útsýni frá útsýnispalli kirkjunnar. 

Samkvæmt könnuninni er Eiffelturninn í París sú bygging sem býður upp á fallegasta útsýni í heimi, en turninn sjálfur er 330 metra hár og efsti útsýnisstaður í 276 metra hæð. Alls voru 5.116 ummæli um fallegt útsýni frá turninum á TripAdvisor.

10 bestu útsýnisbyggingar í heimi

  1. Eiffelturninn, París
  2. Empire State-byggingin, New York-borg
  3. Basilique du Sacré-Cœur de Montmartre, París
  4. Top of the Rock, New York-borg
  5. Halászbástya, Búdapest
  6. Hallgrímskirkja, Reykjavík
  7. London Eye, Lundúnum
  8. Edinborgarkastali, Edinborg
  9. Chapel of the Holy Cross, Arizona
  10. Burj Khalifa, Dúbaí
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert