Tónlistarkonan, plötusnúðurinn og útvarpsstjarnan Ragga Holm nýtur þess að ferðast um landið og er hún einmitt nýkomin heim úr vikuferð þar sem hún ferðaðist um Austfirði.
Uppáhaldsstaðurinn á Íslandi á sumrin og hvers vegna?
Ég elska að fara til Eskifjarðar. Stór partur af fjölskyldu kærustunnar býr þar og það er svona heilagur staður fyrir mig til þess að hvílast og njóta. Við vorum ekkert svo heppnar með veður í ár, rétt misstum af blíðunni fyrir austan en það breytir engu, alltaf huggulegt að vera þarna í kyrrðinni. Svo ef fólk vill krútta yfir sig þá er alltaf lítill rebbi á Mjóeyri sem er þarna á Eskifirði.
Nú tekur dágóðan tíma að keyra úr höfuðborginni austur á firði. Ertu með einhver ráð til að gera aksturinn skemmtilegri?
Gott hlaðvarp og góð tónlist til skiptis. Skiptast á að keyra og detta á trúnó með eitthvað gott til að narta í. Ég keyrði í 8 tíma um daginn og þessi formúla svínvirkaði.
Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið innanlands?
Ég hugsa að það hafi verið fyrsti hringurinn sem ég keyrði með kærustunni þegar átakið „ferðumst innanlands“ var i gangi. Við vorum ótrúlega duglegar að droppa á ýmsum stöðum og skoða svona þessa hluti sem maður hefur ekki séð áður! Þá skoðaði eg Austurlandið og firðina vel.
Langar þig að deila þínu ferðalagi innanlands með landanum?
Ferðavefur mbl.is efnir til ljósmyndakeppni þar sem lesendur eru hvattir til að senda inn sínar bestu ljósmyndir úr ferðalaginu eða útilegunni. Í verðlaun eru veglegir vinningar frá Fjallakofanum að verðmæti 200 þúsund króna sem ættu að hitta beint í mark hjá ferðalöngum á öllum aldri.
Ljósmyndakeppnin mun standa yfir í tvær vikur og lýkur hinn 10. ágúst næstkomandi. Til að skera úr um bestu myndirnar mun dómnefnd mbl.is velja fimm bestu myndirnar og hljóta sigurvegararnir frábær verðlaun.
Það er einfalt að taka þátt og eru lesendur hvattir til að senda inn flottustu ferðamyndir sínar HÉR, en þar má einnig nálgast frekari upplýsingar um keppnina, leiðbeiningar og vinninga.