Barinn The ROOF á Reykjavík Edition-hótelinu hefur verið valinn þriðji besti þakbarinn í heimi af bresku vefsíðunni EnjoyTravel. Notaði hún til þess gæðakerfi sem samanstendur af uppsöfnuðum stigum úr einkunnum á samfélagsmiðlum og framlagi frá ritstjórn þess hluta vefsíðunnar sem ber heitið Big 7 Travel.
Í lýsingunni á barnum er sagt að The ROOF sé einn af eftirsóttustu þakbörunum í heimi og er talinn vera besti staðurinn í Reykjavík til að njóta langra sumarnótta sem og norðurljósanna. Býður barinn upp á 360 gráðu útsýni yfir hafið, fjöllin og borgina sjálfa. Matseðilinn er sagður vandlega útbúinn og vakin er athygli á því að hann styðji sjálfbæran búskap. Mælt er sérstaklega með drykknum Sake Spritz.