Harry heimsækir Bretland án Meghan

Meghan og Harry láta sjá sig saman á Invictus-leikunum í …
Meghan og Harry láta sjá sig saman á Invictus-leikunum í Þýskalandi. AFP/Sem van der Wal

Harry prins mun leggja land undir fót og heimsækja Bretland í byrjun september. Hann mun vera viðstaddur verðlaunaafhendingu á vegum WellChild-góðgerðasamtakanna sem styðja við alvarlega veik börn. Verðlaunaafhendingin fer fram þann 7. september en daginn eftir er ár liðið síðan Elísabet II Bretlandsdrottning lést.

Harry prins verður því í Bretlandi á dánardegi drottningar en ólíklegt þykir að hann verði með konungsfjölskyldunni til þess að minnast hennar. Enn hefur ekki gróið um heilt í þeirra samskiptum. Þá er vitað að Vilhjálmur prins og Katrín prinsessa verði í Wales á þeim degi og verða viðstödd messu í St David's Cathedral.

Meghan ekki með til Bretlands

Eftir það mun Harry prins ferðast til Þýskalands þar sem Invictus-leikarnir fara fram. Meghan mun ekki fara með Harry prins til Bretlands heldur hitta hann í Þýskalandi og koma fram með honum á leikunum. Hún er sögð vera að forðast Bretland enda ekki í miklum metum þar meðal almennings.

Ekki er vitað hvar Harry mun dvelja á Bretlandi. Stutt er síðan hann þurfti að skila lyklunum að heimili sínu Frogmore Cottage. Hann þarf að biðja sérstaklega um dvalarstað á vegum krúnunnar. Þá nýtur hann ekki sérstakrar verndar bresku lögreglunnar á meðan hann dvelur í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert