Ferðavefur mbl.is efndi til ljósmyndakeppni í lok júlí þar sem lesendur voru hvattir til þess að senda inn sínar bestu ljósmyndir úr ferðalaginu eða útilegunni. Jón Gauti Jónsson sigraði í ljósmyndakeppninni með ljósmyndinni Ferðalangur í eigin heimi í Kerlingarfjöllum. Vinningshafar fengu samtals 200.000 kr. vinning frá Fjallakofanum.
„Ferðalangur í sínum eigin heimi í Kerlingarfjöllum,“ segir Jón Gauti um mynd sína.
„Þessi mynd er tekin á einum heitasta degi sumarsins. Við höfðum vaknað snemma í steikjandi heitu tjaldinu á tjaldsvæðinu við Faxa og þurftum einfaldlega að fara og kæla okkur á góðum stað. Við hittum góða vini við Stöng og gengum saman að Gjárfossi þar sem við busluðum og skemmtum okkur,“ segir Sandra Pétursdóttir um mynd sína.
„Á fallegum sumardegi í júní gerði úrhellisrigningu þegar ég og kærastan mín vorum að græja okkur í göngu inni í Hvalfirði og þarna náði ég að smella mynd af henni að njóta sólarinnar í rigningu,“ segir Hermann um mynd sína.
„Ég tók þessa mynd í gönguferðinni á milli Núpsstaðaskógar og Skaftafells sumarið 2021. Þarna erum við stödd á hæsta punktinum okkar í ferðinni, við topp fjallsins Blátinds á síðasta deginum okkar. Gosmóðan frá Geldingadölum hafði borist alla leiðina að Skaftafelli, sem gerði útsýnið þeim mun dramatískara,“ segir Ísak um mynd sína.
Brynjólfur Löve Mogensson, Eggert Jóhannesson,
Kristinn R. Árnason og Kristinn Magnússon.