Icelandair valið besta evrópska flugfélagið

Icelandair var valið besta evrópska flugfélagið.
Icelandair var valið besta evrópska flugfélagið. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Icelandair var valið besta evrópska flugfélagið á dönsku ferðaþjónustuverðlaununum sem veitt voru í Cirkusbygningen í Kaupmannahöfn í vikunni. Á verðlaunahátíðinni fengu fyrirtæki og aðilar í ferðaþjónustu og flugi viðurkenningu fyrir eftirtektarverðan árangur.

 „Við erum afar stolt af því að hljóta þessi verðlaun og erum auðmjúk gagnvart því að vera metin fremst í flokki þeirra nítján evrópsku flugfélaga sem valið stóð á milli. Viðurkenningin er fyrst og fremst til marks um árangur starfsfólks Icelandair og samstarfsaðila okkar sem leggja sig fram við að veita viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu og einstaka ferðaupplifun á hverjum degi.

Þessi viðurkenning er engin endastöð heldur fyrst og fremst hvatning um að gera enn betur í framtíðinni,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair.

Tómas Ingason, framkvæmdarstjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair.
Tómas Ingason, framkvæmdarstjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair. Ljósmynd/Aðsend

Því besta í ferðaþjónustu og flugi fagnað

Dönsku ferðaþjónustuverðlaunin (Danish Travel Awards) eru árlegur viðburður þar sem því besta í ferðaþjónustu og flugi er fagnað. Tilnefningar fara fram í samstarfi við BARID, samtök flugfélaga sem starfa í Danmörku. Vinningshafarnir eru valdir með fjölþættri einkunnagjöf frá Samgöngustofu Danmerkur og dönskum flugvöllum. Einkunnagjöfin er svo yfirfarin af dómnefnd frá Epinion.

Verðlaunin eru veitt þeim félögum sem stöðugt veita framúrskarandi þjónustu og skapa eftirminnilega upplifun fyrir viðskiptavini sína. Þrjú flugfélög kepptu til í úrslita í flokki flugfélaga en auk Icelandair voru það KLM og Finnair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert