48 tímar í Þýskalandi: Oberwesel og Köln

Burghotel auf Shoenburg stenst allar kröfur hvað gæði og þjónustu …
Burghotel auf Shoenburg stenst allar kröfur hvað gæði og þjónustu varðar. Ljósmynd/Aðsend

Tvær nætur í Þýskalandi er ekki langur tími fyrir ferðamann en stundum er fátt annað í boði en að fara af stað í slíka örferð og gera það mesta úr tímanum. Blaðamaður ferðavefs Mbl.is fór í slíka örferð í nóvember með fjölskyldu sinni og deilir hér nokkrum hugmyndum um hvernig má nýta tímann sem allra best.

Kastalinn er fallegur úr fjarlægð.
Kastalinn er fallegur úr fjarlægð. Skjáskot/Instagram

Oberwesel og Köln

Loka áfangastaðurinn var Köln en undirrituð þurfti að mæta á viðburð í þeirri borg á föstudagskvöldi. Ákveðið var að fljúga út á fimmtudegi en flogið er til Frankfurt frá Íslandi og lent í Þýskalandi um hádegi.

Í stað þess að fara beint af stað til Kölnar var ákveðið að stoppa í eina nótt í bæ sem staðsettur er á miðri leið til Kölnar. Að þessu sinni var pantaður Uber en það má hins vegar benda á að lestarsamgöngur eru mjög góðar í Þýskalandi og ekki síðri kostur, sérstaklega fyrir þá sem verða mjög bílveikir.

Garðurinn umhverfis kastalann var feikistór og leyndardómsfullur.
Garðurinn umhverfis kastalann var feikistór og leyndardómsfullur. Ljósmynd/Aðsend
Gamli sjarminn ræður ríkjum í veitingasal kastalahótelsins.
Gamli sjarminn ræður ríkjum í veitingasal kastalahótelsins. Ljósmynd/Aðsend

Gist í gömlum kastala

Eftir um klukkustundarakstur frá Frankfurt flugvelli vorum við mætt í þýsku sveitina, kastalaþorpið Oberwesel sem liggur við Rínarfljót. Þar gistum við í gömlum kastala, Burghotel auf Schoenburg

Það var talsverð kúnst að finna smekklegt kastalahótel sem uppfyllir háar kröfur undirritaðrar og var vel staðsett upp á fjarlægðir frá Frankfurt og Köln. Þegar þangað var komið tók á móti okkur velviljað starfsfólk í hefðbundnum þýskum klæðnaði, konurnar í svokölluðum „drindl“ sem samanstendur af blússu, pilsi, svuntu og mittisvesti.

Svefnherbergin eru öll í mjög klassískum sveitastíl í anda kastalans. Þung viðarhúsgögn, rúm með himnasængur og litlar „rekkjur“ fyrir börnin sem hægt er að draga fyrir.

Umhverfis kastalann er feikistór og leyndardómsfullur garður með endalausum krókaleiðum og göngustígum og auðvelt er að týnast þar! 

Við ákváðum að verja öllum deginum í kastalanum, borða góðan mat, rölta um svæðið og njóta útsýnisins yfir Rínarfljót.

Þetta er klárlega áfangastaður sem gaman væri að heimsækja aftur, þá um hásumar, á bílaleigubíl og keyra um þetta skemmtilega svæði en þarna leynast ýmsir litlir bæir sem skarta hinum klassíska, gamla þýska arkitektúr. Það væri til dæmis gaman að heimsækja Beilstein sem er í klukkustundar akstursfjarlægð frá Oberwesel. 

Krökkunum fannst sérstaklega gaman að geta sofið í svona gamaldags …
Krökkunum fannst sérstaklega gaman að geta sofið í svona gamaldags rekkju sem hægt var að draga fram og loka af með gardínum. Ljósmynd/Aðsend
Þjónustufólkið var klætt í hefðbundnum þýskum fatnaði.
Þjónustufólkið var klætt í hefðbundnum þýskum fatnaði. Skjáskot/Instagram
Ústýnið úr kastalanum er fallegt.
Ústýnið úr kastalanum er fallegt. Ljósmynd/Aðsend




Dómkirkjan í Köln svíkur engan

Morguninn eftir tókum við lestina til Kölnar. Köln er skemmtileg borg. Verslunargatan þar er frábær fyrir Íslendinginn, þar má finna öll helstu fatamerkin sem og keðjur á borð við McDonalds og Starbucks (sem gladdi mjög unglinginn á heimilinu). 

Dómkirkjan er auk þess ægifögur og skylda hvers og eins að berja hana augum.

Það var áratugur frá því blaðamaður kom síðast til Kölnar og ljóst er að borgin hefur þróast mjög síðan þá. Hún er tæknivædd líkt og stórborgir á borð við London og París. Þjónustur á borð við Uber og Wolt gera svona örferðalög mikið einfaldari í sniðum, hvað þá þegar maður ferðast með börn en þá er gott að geta pantað McDonalds eða Five Guys upp á hótel seint á kvöldin þegar börnin eru orðin þreytt á hlaupunum.

Matarmenningin í Köln er einnig til fyrirmyndar. Við borðuðum kvöldmat á stað sem heitir Restaurant Piazzas við Drususgasse en það er fjölskyldurekinn staður með lítinn matseðil en einungis gæða hráefni. Pastaréttir voru þar áberandi en einnig var hægt að fá steik og fisk.

Í heild má segja að tvímælalaust er hægt að upplifa ógleymanlega staði á aðeins 48 klukkustundum og safna í hugmyndasjóð fyrir næsta ferðalag sem verður vonandi lengra.

Dómkirkjan í Köln er ægifögur.
Dómkirkjan í Köln er ægifögur. AFP
Hugað er að hverju smáatriði í kastalanum. Baðherbergin eru meira …
Hugað er að hverju smáatriði í kastalanum. Baðherbergin eru meira að segja rómantísk. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert