Þrátt fyrir að vera ein launahæsta og frægasta fyrirsæta í heimi hefur fyrirsætan Irina Shayk ekki ferðast til allra þeirra staða sem hana langar til að ferðast til. Hún deildi lífslistanum sínum í nýlegu viðtali við Elle.
Shayk var feimin við að segja frá öllum draumum sínum en sagðist þó vilja ferðast meira.
„Ég hef aldrei farið til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Og mig langar að fara aftur til Madagaskar af því það er uppáhaldsstaðurinn minn.“
Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við Shayk.
Madagaskar er eyja í Indlandshafi og liggur við suðausturströnd Afríku. Eyjan er þekkt fyrir ótrúlega náttúru og magnað dýralíf.
Sara Sigríður Ólafsdóttir greindi frá því í viðtali við ferðavef mbl.is að hún hefði komið til 46 landa á 27 árum. Madagaskar var meðal þeirra landa standa upp úr að hennar mati. „Svo er Madagaskar eitt fallegasta land sem ég hef komið til sem ég gæti ekki mælt meira með,“ sagði Sara.
Vilmundur Hansen, garðyrkju- og grasafræðingur, var einnig ánægður með ferð sína til Madagaskar. „Madagaskar hefur lengi verið draumaáfangastaður hjá mér. Sem krakki horfði ég á þessa fjarlægu og dularfullu eyju á korti og dreymdi um að fara þangað. Í vor rættist sá draumur og ég varð ekki fyrir vonbrigðum enda gróðurfar og dýralíf á eyjunni einstakt,“ sagði Vilmundur í viðtali við ferðavef mbl.is árið 2019.