Hálendi Íslands gegnir lykilhlutverki í splunkunýrri kynningarherferð fyrir rafknúna pallbílinn Tesla Cybertruck sem hófst á dögunum.
Bíllinn var frumsýndur í desember 2019 og vakti strax mikla athygli. Aðeins tveimur dögum eftir frumsýninguna greindi Elon Musk forstjóri Tesla frá því að þegar hefðu yfir 146 þúsund pantanir borist.
Ljósmyndarinn Benjamin Hardman var einn þeirra sem komu að tökum á auglýsingunum, en þær voru teknar upp á hálendi Íslands síðastliðið haust. Hann deildi nokkrum myndum af því sem gerðist á bak við tjöldin og sagði fylgjendum sínum á Instagram frá verkefninu.
„Cybertruck á Íslandi. Ég get ekki sagt að Ísland hafi nokkru sinni verið jafn líkt annarri plánetu og þegar ég sá Cybertruck í hálendislandslaginu. Beint úr sci-fi-kvikmynd. Í haust fékk ég tækifæri til að vinna með Tesla Motors-teyminu og Hero Iceland í tökum fyrir kynningarherferð Cybertruck.
Ég var aðallega að aðstoða við flutninga, finna upptökustaði og að taka upp á bak við tjöldin, en ég náði að taka nokkrar myndir í leiðinni líka og hef verið svo spenntur að deila þeim. Ég þakka öllum í teyminu fyrir að koma verkefninu í framkvæmd, það er mikil vinna á bak við þetta,“ skrifaði Benjamin.