Cassandra Jovanovic hætti í vinnunni sinni og ákvað að ferðast um Ástralíu í húsbíl í ellefu mánuði. Hún sá ferðalagið fyrir sér í dýrðarljóma en sjarminn var fljótur að hverfa.
Jovanovic var búin að leggja til hliðar dágóða upphæð til þess að geta leyft sér að ferðast í rúmt ár. Hún eyðir um 50 þúsund krónum á viku í matarinnkaup, bensín og önnur aksturstengd gjöld.
„Húsbílalífið virðist fullkomið á netinu en fólk áttar sig ekki á því hversu oft eitthvað fer úrskeiðis,“ segir Jovanovic í viðtali við DailyMail.
„Bíllinn hefur margoft bilað, ég hef þurft að dúsa í litlum bíl á meðan óveður gengur yfir og sef á óþægilegri dýnu þannig að mig verkjar í hálsinn. Þá get ég bara farið í búðina á nokkurra daga fresti því það er bara ekkert pláss fyrir innkaupin í bílnum. Stundum hef ég þurft að borða bara spagettí á brauð.“
„Maður þarf að tileinka sér æðruleysi því hlutir eru alltaf að fara úrskeiðis. Maður þarf bara að takast á við það og halda áfram. Það er verst þegar bíllinn bilar. Ég hef verið föst í einskismannslandi en til allrar hamingju tókst mér að ná símasamandi og gat hringt og látið draga bílinn á verkstæði.“
„Það er vesen að vera á biluðum húsbíl því það er heimili manns. Maður verður því að finna sér aðra gistingu á meðan verið er að gera við bílinn.“
Húsbíllinn er 13 ára gamall og hefur rúm, lítinn ísskáp, vask, helluborð og lítið borð og eldhúsbekk sem hægt er að fella niður. Bíllinn hefur hins vegar ekki sturtu eða klósett þannig að hún þarf að nýta sér líkamsræktarstöðvar eða aðrar þjónustumiðstöðvar á ferðalagi sínu. Þá er Jovanovic afar hávaxin eða um 1.82 cm á hæð og getur því ekki setið upprétt í rúminu. Það finnst henni þreytandi.“