„Þetta er vissulega ekki hættulaust“

Jökull Bergmann hefur stundað fjallaskíðamennsku til fjölda ára.
Jökull Bergmann hefur stundað fjallaskíðamennsku til fjölda ára. mbl.is/Brynjólfur Löve

Þegar Jökull Bergmann kom aftur til Íslands til að starfa sem fjallaskíðaleiðsögumaður lá alveg ljóst fyrir að hér yrði ekki farin hin svokallaða „íslenska leið“ heldur yrði alþjóðlegum gæða- og öryggisstöðlum fylgt til hins ýtrasta. 

Hingað til hafa engir ferðamenn í hans umsjá látið lífið eða slasast alvarlega í fjallaskíðaferðum en fyrirtæki hans Bergmenn þjónustar um 16 til 28 ferðamenn á viku á þyrluskíðavertíðinni, sem nær frá febrúar og fram í júní.

Jökull ræðir við blaðamenn, ásamt Agnesi Önnu Sigurðardóttur eiganda Kalda, um ferðaþjónustu á Tröllaskaga í Hringferðarhlaðvarpi Morgunblaðsins.

Enginn farið í mjög slæmu ásigkomulagi

Fyrir fólk úr bænum sem finnst það í sjálfu sér afrek að setjast á snjóþotu og komast klakklaust niður brekku innan borgarmarkanna – er þetta ekki stórhættulegt? Hver eru afföllin af ferðamönnum hjá ykkur?

„Hingað til hafa þau verið engin. Þetta er vissulega ekki hættulaust. Það er að segja að fljúga í þyrlu í fjalllendi að vetrarlagi er áhættusamt og það að skíða utan brautar er áhættusamt – snjóflóð, veður og annað slíkt en við höfum á þessum árum – við byrjuðum hérna '98 með fjallaskíðaferðir og 2008 með þyrluskíðaferðirnar og höfum aldrei lent í því að neinn hafi farið héðan í mjög slæmu ásigkomulagi og það hefur enginn dáið í þessum ferðum.“

Jökull ítrekar þó að alvarleg slys geti komið fyrir og hafa komið fyrir víða erlendis.

„Fólk lendir í óhöppum og slasast og deyr en það hefur ekki gerst á Íslandi hingað til og það er kannski bara vegna þess að við höfum frá fyrsta degi rekið þessa starfsemi eftir ströngustu alþjóðlegu stöðlum,“ segir Jökull og útskýrir að hann hafi unnið sér inn alþjóðleg fjallaleiðsögumannaréttindi erlendis áður en hann hóf að starfa sem slíkur.

„Þegar að starfsemin byrjar [á Íslandi] þá flytjum við þessa staðla frá Kanada, sem er svona aðal staðurinn í þessum geira, og stofnum fyrirtækið og byggjum þetta upp algjörlega á svona hæsta gæða- og öryggisstandard frá upphafi. Það var ekki svona íslenska leiðin í því eins og vill oft verða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert