Sá fljótt eftir því að hafa flutt til Íslands

Annabel Fenwick Elliott varð heilluð af Íslandi eftir þriggja daga …
Annabel Fenwick Elliott varð heilluð af Íslandi eftir þriggja daga ferðalag árið 2018. Skjáskot/Instagram

Margir kannast eflaust við að hafa hugsað með sér: „Hér gæti ég búið!“ eftir gott ferðalag erlendis. Það er einmitt það sem Annabel Fenwick Elliott gerði, en hún varð hugfangin af Íslandi eftir þriggja daga ferðalag árið 2018. Fjórum árum síðar ákvað hún að flytja til Íslands með fjölskyldu sína.

Lífið á Íslandi reyndist hins vegar ekki vera jafn gott og hún hafði haldið, en eftir árslanga dvöl á Íslandi flutti fjölskyldan aftur til Lundúna.

Elliott er breskur pistlahöfundur á Telegraph, en hún skrifaði nýverið pistil um upplifun sína af því að búa a Íslandi og segir landið vera frábæran stað til að ferðast á en hræðilegan stað til að búa á. 

Ísland draumur fyrir „innhverfa“

Elliott heimsótti Ísland í fyrsta sinn í mars árið 2018. Þá var hún nýlega orðin einhleyp og var að leigja pínulitla íbúð með öðru fólki í Lundúnum. Hún varð strax heilluð af landinu, þá aðallega af landslaginu, kyrrðinni og víðáttunni, og sá fyrir sér að lífið á Íslandi myndi henar henni afar vel og væri í raun draumur fyrir „innhverfa einstaklinga“ eins og hana. 

Fjórum árum síðar bauðst unnusta Elliott starf á Íslandi sem þyrluflugmaður og ákváðu þau að flytja til landsins. Hún segir landslagið og kyrrðina ekki vera það eina sem hafi heillað hana við landið heldur einnig hve hátt Ísland skorar á hamingjukönnunum. Samkvæmt World Happiness Report 2023 er Ísland þriðji besti staðurinn á jörðinni þegar kemur að þáttum eins og heilsu, auð, félagslegum stuðningi og samfélagi. Til viðmiðunar sé Bretland í 19. sæti. 

„Gat ekki einu sinni fengið bankareikning, hvað þá heilbrigðisþjónustu“

„Við fluttum þangað í ágúst 2022 – og entumst í nákvæmlega eitt ár. Ísland er enn á meðal uppáhaldslanda minna á jörðinni til að ferðast til, en hvernig íbúar þar eru svona tölfræðilega hamingjusamir er mér óskiljanlegt,“ skrifar Elliott í pistlinum. 

„Staðan okkar hjálpaði ekki. Við fluttum aðeins 14 dögum eftir að ég fæddi son okkar með keisara. Þrátt fyrir að Ísland sé ekki aðili í ESB breytti Brexit flutningunum í martröð – það var tekið á móti þýskum unnusta mínum með opnum örmum, en ég gat ekki einu sinni fengið bankareikning, hvað þá heilbrigðisþjónustu,“ útskýrir hún og bætir við að hún hafi því  stöðugt þurft að vera á flakki á milli Íslands og Bretlands ein með barnið.

„Ísland er staður öfga“

Í pistlinum segir Elliott Ísland vera stað öfga. Frá himni sjái maður stórbrotnasta landslag sem hægt er að verða vitni að, en frá hagnýtu sjónarhorni sé landið ekki jafn stórbrotið. 

Hún nefnir til dæmis að stór hluti landsins sé ekki aðgengilegur og því hafi meirihluti þjóðarinnar „þjappast“ saman á höfuðborgarsvæðið þar sem leiga sé himinhá. Þá nefnir hún einnig að lítið sé hægt að rækta á Íslandi og því sé mikið af matvælum innflutt og þar af leiðandi á fáránlega háu verði. Elliott segir áfengi einnig vera allt að þrisvar sinnum dýrara hér en í heimalandi hennar og að aðgengi að því sé takmarkað. 

Elliott furðar sig einnig á ströngum reglum á Íslandi og nefnir frægar reglur frá árum áður, eins og til dæmis bjórbannið á níunda áratugnum, að það hafi ekki verið hægt að horfa á sjónvarp á fimmtudögum og í júlímánuði, og að hundahald hafi verið bannað í Reykjavík. 

„Í dag eru enn strangar reglur hjá aðilum eins og póstþjónustunni – pakkar sem móðir mín sendi mér voru iðulega opnaðir og innihald þeirra skattlagt, þar á meðal náttföt og afmæliskort fyrir barnabarn hennar,“ útskýrir Elliott.„ Á hinn bóginn starfa öll kerfi á Íslandi á miskunnarlausri skilvirkni, svo þú finnur ekki illa skipulagða vegi eða lélega þjónustu við viðskiptavini.“

Þrátt fyrir að hafa nefnt hina ýmsu galla við Ísland í pistlinum segir Elliott ýmsa kosti vera við þjóðina. Hún segir að þrátt fyrir að íslenskan sé „furðulegt, ótrúlegt og vandræðalegt“ tungumál sé enska mikið töluð. Einnig séu Íslendingar með góðan húmor.

Elliott segir hreint drykkjarvatn einnig vera stóran kost við Ísland, en þar að auki séu almenningslaugarnar flekklausar og rúmgóðar. Þá er Dalslaug í Úlfarsárdal í sérstöku uppáhaldi hjá henni. 

Veðrið gerði útslagið

„Þetta er líka eini staðurinn í heiminum þar sem engar moskítóflugur eru – þeim líkar ekki loftslagið og hver getur kennt þeim um?“ bætir hún við.

Það var einmitt verðið sem gerði útslagið og varð til þess að fjölskyldan flutti aftur til Lundúna. Þrátt fyrir að hafa upplifað kaldan og dimman vetur segir hún sumarið hafa verið erfiðara fyrir þau. 

„Það var ekki einu sinni veturinn þar sem sólin kemur aðeins upp í nokkra klukkutíma á dag og okkur snjóaði reglulega inni. Það var eitthvað dramatískt og nýstárlegt við það. Það var sumarið, þegar sólin settist ekki í nokkra mánuði, sem mér fannst ruglandi og olli svefnleysi; og sú staðreynd að það var enn of andskoti kalt til að geta notið útiverunnar nægilega vel,“ útskýrir Elliott.

„Kannski er þetta ástæðan fyrir því að Íslendingar eru svona hamingjusamir, og raunar hvers vegna Norrænar þjóðir eru alltaf á toppi hamingjulistans. Þú verður að vera gerður úr sterkum beinum til að þola svona krefjandi lífsskilyrði,“ bætti hún við. 

Að lokum mælir hún með því að allir heimsæki Ísland einhvern tímann á lífsleiðinni, enda sé það mikið ævintýraland. Hún segist þó halda að ansi fáir gætu eytt ævinni þar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert