Hrafninn Krummi hefur vakið athygli á samfélagsmiðlinum TikTok eftir að Rebecca Cathrine Kaad Ostenfeld, bóndi í Hólum í Hvammssveit í Dölunum, birti myndband af honum að tala.
Í myndbandinu segir Rebecca frá því að Krummi hafi verið hjá fjölskyldunni í rúmlega átta ár, en hann kom til þeirra eftir að hafa lent í slysi. Þá útskýrir hún einnig að hann geti ekki flogið og muni ekki geta flogið.
„Þegar hann var tveggja ára byrjaði hann að tala íslensku af því já, hann er snjall fugl. Svo við skulum heilsa upp á Krumma,“ segir hún og byrjar svo að spjalla við Krumma.
@holarfarmiceland Animal shelter in the west of Iceland, meet Krummi the talking raven #holarfarm #holarfarmiceland #happyanimals #krummi #krummithetalkingraven ♬ original sound - Hólar Farm
Rebecca rekur dýragarð sem er eins konar dýraathvarf ásamt fjölskyldu sinni, en í samtali við Morgunblaðið árið 2021 sagði hún frá því að Krummi hafi lært að tala af sjálfsdáðum.
„Hann er alveg ótrúlegur, hann kann að segja hæ, mamma, ha hvað, Baltasar, já og nei. Stundum talar hann líka alveg eins og útvarp,“ sagði Rebecca í viðtalinu.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Krummi vekur athygli, en hann birtist í sjónvarpsþáttunum Kötlu á Netflix.
Rebecca segir hrafninn að sjálfsögðu hafa fengið að fylgjast með þegar þættirnir voru frumsýndir í sjónvarpinu og að það hafi komið fjölskyldunni á óvart hvernig hann brást við áhorfinu. „Þegar hann sá Ingvar tók maður eftir að hann þekkti hann og hann þekkti líka umhverfið. Svo þegar myndavélinni var beint að honum þá hrópaði hann: „Krummi!“ Hann þekkti sjálfan sig í sjónvarpinu, þetta var alveg ótrúlegt,“ sagði Rebecca.