Nýja lúxusskip Royal Caribbean og stærsta skemmtiferðaskip heims, Icon of the Seas, lagði af stað í sína jómfrúarferð frá Miami hinn 27. janúar síðastliðinn.
Liðsmenn People fengu að hoppa um borð áður en skipið lagði úr höfn og fengu blaðamenn að verja nokkrum dögum í að kynna sér götur og ganga, en skemmtiferðaskipið er byggt upp eins og lítil borg með átta mismunandi hverfum.
Á Icon of the Seas er að finna litríka vatnagarða, leikhús, spilavíti, veitinga- og skemmtistaði og margt fleira, en 20 þilför eru á skipinu og getur það siglt með hátt í 8.000 manns í einu. Skipið er fimm sinnum stærra en eitt þekktasta skip sögunnar, Titanic.
Ein vika um borð með öllu inniföldu getur kostað skildinginn, en áætlaður ferðakostnaður getur kostað allt frá 500.000 krónum upp í 13 milljónir íslenskra króna.