Þjórfé hefur náð nýjum hæðum í Bandaríkjunum og krafan á gesti að gefa sífellt meira þjórfé er íþyngjandi og erfið viðureignar fyrir ferðamenn segir í umfjöllun The Times.
„Þetta er að nálgast sársaukamörk. Þjórfé var áður fyrr táknræn athöfn um vel unnin störf. Núna er þetta orðin krafa og í raun bara skylda. Í New York er algengt að krafist er 20% í þjórfé. Skilji maður „aðeins“ 15% eftir í þjórfé þá má maður eiga von á skætingi. Þetta á við á öllum sviðum þjónustugeirans, hvort sem um er að ræða leigubíll, kaffibarþjónar eða gengilbeinur. 20% er bara standard.“
Pistlahöfundur The Times lýsti eigin reynslu af því að gefa þjórfé í Bandaríkjunum. Eitt sinn gaf hann 15% og þjónn á hóteli kom til baka, skilaði peningunum og sagði: „Ef þetta er það eina sem þú hefur efni á þá ættirðu ekki að vera hér.“ Annar kom til baka og spurði hvað hann hefði gert rangt. Á samfélagsmiðlum er svo hægt að finna enn verri dæmi um skæting og árásir sem fólk verður fyrir ef það gefur ekki nægt þjórfé.
„Meira að segja í sjálfsafgreiðsluvélum er takki til að skilja eftir þjórfé! Nú virðist sem Bandaríkjamenn séu sjálfir að verða þreyttir á því að gefa þjórfé. Kannanir hafa sýnt að um 75% telja að þetta sé komið út í öfgar.“
„Helst bitnar þetta á þeim sem borða á veitingastöðum. Veitingastaðir borga yfirleitt undir viðmiðum um lágmarkslaun og treysta á að viðskiptavinirnir brúi bilið fyrir starfmennina. Færri vita þó að í mörgum ríkjum gildir sú regla að þegar starfsmaður nær ekki upp í lágmarkslaun með þjórfé þá á veitingastaðurinn að brúa bilið. Þetta er ekki á ábyrgð viðskiptavinarins,“ segir í umfjöllun The Times. „Til stendur að koma á sams konar fyrirkomulagi í New York. Það þarf að létta á þeim þrýstingi sem viðskiptavinir upplifa. Þetta þýðir þó að líklega muni þetta hafa áhrif á verðlag veitingastaða sem er nógu hátt nú þegar.“