Á bókunarvef Airbnb má finna fjölda spennandi eigna til útleigu um allt land. Eignirnar eru í ýmsum stærðum og gerðum með mismunandi verðmiða.
Ferðavefur mbl.is tók saman fimm dýrustu eignirnar sem eru til útleigu á Airbnb þessa stundina, en eignirnar eiga það sameiginlegt að vera afar glæsilegar og bjóða gestum upp á mikinn lúxus.
Við bakka Þverár í Borgarfirði stendur sveitaperlan Efra-Nes umvafin töfrandi náttúru. Á undanförnum árum hefur eignin verið gerð upp að miklu leyti og innréttuð í rómantískum sveitastíl með fallegum mublum og söguríkum munum sem eigendurnir hafa safnað að sér í gegnum árin.
Húsið er rúmgott með fimm herbergjum og tveimur baðherbergjum og hentar því vel fyrir stærri hópa, fjölskyldur eða viðburði, en þar rúmast allt að tíu næturgestir hverju sinni. Hægt er að leigja Efra-Nes út á Airbnb og fyrstu vikuna í júlí kostar nóttin 5.415 bandaríkjadali, eða sem nemur tæplega 753 þúsund krónum á gengi dagsins í dag.
Við Sunnuflöt í Garðabæ stendur hin tignarlega og stórglæsilega Hvíta Villa sem er í eigu Halldórs Kristmannsonar viðskiptamanns. Húsið var hannað af dönsku hönnunarstofunni Gassa og upprunalega steypt árið 2008, en það var ekki fullklárað fyrr en árið 2016. Þá eru allar innréttingar smíðaðar af danska framleiðandanum Boform og greinilegt að ekkert hafi verið til sparað við gerð eignarinnar.
Húsið telur heila 930 fm og státar af fjórum svefnherbergjum og þremur baðherbergjum. Það er til útleigu á Airbnb og rúmar allt að sex næturgesti hverju sinni, en fyrstu vikuna í júlí kostar nóttin í húsinu 4.514 bandaríkjadali, eða sem nemur rúmlega 627 þúsund krónum á gengi dagsins í dag.
Nálægt Úlfljótsvatni á Suðurlandi stendur hinn glæsilegi Úlfljótsskáli. Í skálanum mætast þægindi og lúxus sem skapa einstaka stemningu fyrir gesti, en við skálann er glæsileg verönd með stórum heitum potti sem rúmar 12-18 manns, eldstæði og víðáttumiklu útsýni yfir náttúrufegurðina í kring.
Skálinn státar af tíu svefnherbergjum og tíu baðherbergjum og rúmar allt að 16 næturgesti hverju sinni. Hann er því tilvalinn fyrir stærri hópa, fjölskyldur eða viðburði. Stór stæði fyrir allt að tíu bíla er fyrir utan skálann, en þar er einnig hægt að lenda þyrlu.
Skálinn er til útleigu á Airbnb, en aðra vikuna í júlí kostar nóttin 4.192 bandaríkjadali, eða sem nemur tæplega 583 þúsund krónum á gengi dagsins.
Í hjarta Tröllaskagans rétt utan við Dalvík stendur Klængshóll sem samanstendur af fjórum sumarhúsum, sveitabæ, baðhúsi og hlöðu. Húsin hafa verið innréttuð á fallegan máta, en í hverju sumarhúsi eru tvær íbúðir og er hver íbúð tilvalin fyrir par eða þriggja manna fjölskyldu.
Í baðhúsinu er gufubað, heitur pottur og nuddherbergi og í hlöðunni er jóga- og afþreyingaherbergi sem gestir geta notað. Einstök náttúra umvefur eignina sem er í heild sinni með tíu svefnherbergi, átta baðherbergi og pláss fyrir allt að 16 næturgesti hverju sinni.
Hægt er að leigja sumarhúsin út á Airbnb, en fyrstu vikuna í júlí kostar nóttin 2.687 bandaríkjadali sem nemur tæpum 374 þúsund krónum ef eitt sumarhús er leigt út í heild sinni.
Á glæsilegum útsýnisstað rétt fyrir utan Siglufjörð stendur sögufrægi bærinn Hóll umvafinn töfrandi náttúru. Miklar endurbætur hafa átt sér stað á húsinu sem hentar allskyns hópum, en Hóll samanstendur af stóru aðalhúsi sem rúmar 27 manns og minni íbúð sem rúmar átta manns til viðbótar. Það er því rými fyrir allt að 35 næturgesti þar hverju sinni.
Á bak við húsið er 20 manna setulaug sem einnig er hægt að nota sem heitan pott með einstöku útsýni yfir Siglufjörð. Hægt er að leigja eigninaút á Airbnb, en fyrstu vikuna í júlí kostar nóttin 2.600 bandaríkjadali, eða sem nemur rúmlega 361 þúsund krónum á gengi dagsins.