Ferðast með íslenskum stjörnum en alltaf best að koma heim

Arnar Dór Ólafsson er gjarnan með myndavélina með sér þegar …
Arnar Dór Ólafsson er gjarnan með myndavélina með sér þegar hann ferðast. Samsett mynd

Kvikmyndagerðarmaðurinn Arnar Dór Ólafsson nýtur þess að ferðast með myndavélina hvort sem hann er á ferðalagi innanlands eða erlendis. Hann ferðast mikið vinnu sinnar vegna þar á meðal með áhrifavöldunum í LXS-þáttunum. Núna er hann á flakki með tónlistarmönnunum Patrik Atlasyni og Daniil. 

„Ég vinn hjá framleiðslufyrirtækinu Skjáskot, þar framleiðum við auglýsingar, sjónvarpsþætti, samfélagsmiðla efni, podcöst og beinar útsendingar svo eitthvað sé nefnt. Auk þess tek ég einstöku sinnum að mér persónuleg verkefni, sem dæmi tónlistarmyndbönd og auglýsingar fyrir samfélagsmiðla,“ segir Arnar Dór um það sem hann er að fást við um þessar mundir. 

Hvernig kviknaði áhuginn á kvikmyndagerð?

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á myndavélum og myndefni. Ég var ungur að árum þegar ég byrjað að taka myndir á gamla myndavél hjá mömmu og pabba á ferðalögum um Ísland. Ég fór síðan að búa til alls konar „stop motion“ myndir með vini mínum með leikföngunum okkar sem þróaðist svo út í það að ég fékk mína fyrstu myndavél frá ömmu og afa og tölvu frá mömmu og pabba í fermingargjöf sem gerði mér kleift að taka fjölbreyttari myndir og búa til allskyns myndbönd. Í menntaskóla ákvað ég að sækja um inngöngu inn í Kvikmyndaskóla Íslands og útskrifaðist ég þaðan, vorið 2020.“

Hvað færð þú út úr því að ferðast?

„Bara gamla góða gleðihormónið, að vera út í náttúrunni að fá ferska loftið í fallegu landslagi. Ég elska að fara í ferðalög með skemmtilegu fólki og taka myndefni í ferðinni.“

Arnar Dór byrjaði snemma að taka myndir á ferðalögum en …
Arnar Dór byrjaði snemma að taka myndir á ferðalögum en þá með myndavél foreldra sinna. Ljósmynd/Arnar Dór Ólafsson

Hljóp af sér menn með hníf á Þjóðhátíð

Aðspurður segist Arnar Dór njóta þess að taka myndir af íslenskri náttúru og af íslensku landslagi. 

„Mér finnst gaman að koma á nýja staði og sjá hvernig landslagið liggur og hefur myndast með árunum, svo er einnig skemmtilegt að fara á sömu staðina á mismunandi árstíðum. Sem dæmi um sumar og vetur.“

Það er heillandi hvernig árstíðarnar mætast á þessari mynd.
Það er heillandi hvernig árstíðarnar mætast á þessari mynd. Ljósmynd/Arnar Dór Ólafsson

Áttu þér uppáhaldsstað á Ísland?

„Ég á mér engan einn uppáhaldsstað, mér finnst langskemmtilegast að ferðast um Suðurland og Suðausturland þótt ég hafi farið á flesta „staðina“ þar, en það spilar að vísu inn í að ég bý á Suðurlandi og það er stutt að fara. Ég hef engu að síður mjög gaman að því að fara á Vestfirði, Austfirði og um Norðurlandið.“

Arnar Dór býr á Suðurlandi og ferðast yfirleitt um Suðurland …
Arnar Dór býr á Suðurlandi og ferðast yfirleitt um Suðurland og Suausturland. Ljósmynd/Arnar Dór Ólafsson

Hefur þú lent í einhverju ævintýri á ferðalagi um Íslandi? 

„Svona eitt og annað, en það sem er mér efst í huga gerðist á síðustu Þjóðhátíð þegar ég var að taka upp árlega þjóðhátíðarmyndbandið fyrir Ölgerðina. Ég var að koma niður af stóra sviðinu þar sem ég hafði verið að mynda allt kvöldið og fór beint inn í fjöldann í dalnum. Þá lenti ég í því að tveir ungir strákar komu að mér og drógu upp hníf og otuðu honum að mér, ég hljóp þá af mér og týndi þeim svo í fjöldanum.

En svona fyrir utan það að þá á ég eina skemmtilega sögu frá Reynisfjöru. Fyrir nokkrum árum var ég að taka drónaskot í Reynisfjöru og dróninn varð batteríslaus og var að lenda í sjónum. Ég henti frá mér fjarstýringunni og hljóp út í sjóinn til að grípa hann og tókst það. Ég greip hann rétt áður en hann lenti í sjónum. Þegar ég hugsa til baka átta ég mig á því að það hafi í raun verið ekki mjög skynsamleg ákvörðun miðað við kraftinn í öldunum.“

Er einhver landshluti eða staður sem þig langar að koma til eða skoða betur?

„Mig langar að skoða Vestfirði betur og þá sérstaklega nyrsta hlutann.“

Ljósmynd/Arnar Dór Ólafsson

Ólík menning heillar

Hvort finnst þér skemmtilegra að ferðast erlendis eða innanlands?

„Klárlega utanlands, mér þykir virkilega gaman að fara til útlanda bæði til landa sem ég hef komið áður til og einnig nýrra landa sem ég hef ekki áður komið til. Sjá ólika menningu og lifnaðarhætti fólks. Ég er rosalega hrifinn af sólarlöndum, aðallega út af hitanum en svo einnig út af því sem hægt er að gera eins og að kafa, fara á jetski og svo framvegis. Ég er einnig hrifinn af umhverfinu, sem dæmi elska ég pálmatré. En svo er alltaf langbest að koma heim eftir smá ferðalag erlendis.“

Hefur þú farið í sérstaklega eftirminnilegt ferðalag erlendis?

„Ég hef ferðast mikið í tökum á sjónvarpsþáttunum LXS og hef því farið sem dæmi til London og Gran Canaria með þeim og hafa það verið alveg sjúklega skemmtilegar ferðir. Að ferðast í landi, að upplifa nýja hluti sem ég hef ekki upplifað áður og á sama tíma að fá að fanga það á filmu.

En svo er ein ferð sem er mér efst í huga þegar ég hugsa um ferðalag erlendis og það er fjölskylduferð til Spánar með stórfjölskyldunni minni árið 2011. Ég rifja reglulega upp minningar úr þeirri ferð. Þar vorum við svo mörg saman frændsystkini á svipuðum aldri og gerðum margt skemmtilegt saman og því er gaman að hugsa til baka þar sem allir eru vaxnir úr grasi í dag.“

Arnar Dór ferðast töluvert í tengslum við vinnuna.
Arnar Dór ferðast töluvert í tengslum við vinnuna. Ljósmynd/Arnar Dór Ólafsson

Spennandi ferðalög framundan

Hvert dreymir þig um að fara?

„Balí og Hawaii hafa alltaf verið á „bucket“-listanum mínum. Ég er svo hrifinn af suðrænum stöðum. Það er eitthvað svo heillandi við þessa staði sem ég kemst ekki yfir, landslagið, umhverfið og hitinn skemmir auðvitað ekki fyrir. En svo langar mig mikið til Tókýó að upplifa menninguna þar. Einnig hefur mig alltaf langað til LA að sjá svona þessa helstu frægu staði þar svo sem Hollywood Sign, Hollywood Walk of Fame, Santa Monica, Pier Beach og margt fleira.“

Ertu byrjaður að skipuleggja ferðaárið 2024? 

„Já svona að minnsta kosti eitthvað. Ég er núna rétt í þessu að fara út til Dúbaí með Patrik Atlasyni (PBT), Daníel Moroshkin (Daniil) ásamt tökuliði að taka upp tónlistarmyndband þar sem þeir eru að gefa út nýtt lag saman í byrjun mars. Svo vikuna á eftir er ég að fara til Marokkó að taka upp sjónvarpsþáttinn LXS. Svo fyrir utan allt það þá ætla ég að ferðast vítt og breitt um landið í sumar.“

Ljósmynd/Arnar Dór Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert