Íslendingafélagið í Washington DC í Bandaríkjunum hélt árlegt þorrablót um síðustu helgi þar sem um 130 manns gæddu sér á þjóðlegum íslenskum mat. Erna Hákonar Pomrenke, varaformaður félagsins til síðustu 12 ára, segir stemningu hafa verið mjög góða og allar veitingar í föstu og fljótandi formi runnið vel ofan í mannskapinn.
Tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson og sonur hans Gummi mættu til Washington og sáu til þess að þorrablótsgestir tjúttuðu á dansgólfinu og tóku vel undir í lögum Hebba á borð við Can't walk Away og Með stjörnunum.
Kokkarnir Kjartan Daníelsson, Jón Þór og Jón Vill sáu um matinn en að sögn Ernu tókst vel að afla allra matarfanga, enda sé Ísland í þeirri sérstöðu miðað við mörg önnur lönd að fá að flytja inn kjötmeti að heiman. Helsti styrktaraðili blótsins var fyrirtækið Kerecis og Gunnar Birgisson, eigandi Reykjavik Creamery, sá til þess að blótsgestir fengu skyrrétt í eftirrétt.
Á þorrablótinu var það einnig kynnt að Íslendingafélagið ætlar að veita tvo námsstyrki í íslenskunámi við háskólasetur Vestfjarða í sumar, með verkefninu Gefum íslensku séns. Nýr formaður félagsins er Sara Edda Clark.