„Íslenskan er tákn um hugrekki“

Fv. Olína Laxdal, Eir Arnbjarnardóttir, Jón Gunnar Þórðarson og Bryndís …
Fv. Olína Laxdal, Eir Arnbjarnardóttir, Jón Gunnar Þórðarson og Bryndís Skarphéðinsdóttir. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Bara tala, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Center Hotels fara í samstarf um átak til að stuðla að aukinni notkun íslensku í ferðaþjónustu. Bara tala er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. 

„Heildarfjöldi innflytjenda sem starfar á Íslandi er 54.114 en í ferðaþjónustu starfa 14.062 innflytjendur. Upp á síðkastið hefur mikið verið rætt um stöðu íslenskunnar og kallað hefur verið eftir nýjum leiðum til að auka aðgengi þeirra sem starfa í ferðaþjónustunni að íslenskunámi. Þetta samstarf hefur afar jákvæð áhrif fyrir öll hótelin í landinu, því með því að innleiða lausnina fyrir starfsfólk hótelanna tveggja þá mun Bara tala þróa námsefni í forritinu sem er sérsniðið að hótelstarfsemi,“ segir í tilkynningu.

Starfstengt íslenskunám fyrir starfsfólk

Center Hotels hefur nú innleitt lausn Bara tala fyrir erlenda starfsfólkið sitt og nýlega gerði Berjaya Hotels slíkt hið sama. Hótelin tóku það skref að útbúa starfstengt íslenskunám sem verður hluti af Bara tala og þar með aðgengilegt öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum sem sækja þjónustuna. Þetta er liður í því að gera íslensku hærra undir höfði, að gefa erlendu starfsfólki lykil að samfélagi og stuðla að inngildingu.

„Það eru forréttindi að vinna með fjölbreyttum hópi starfsfólks sem kemur með reynslu og þekkingu allstaðar að. Center Hotels telur Bara tala vera mikilvægt tól til inngildingar, tækifæra og til að auka jöfnuð í íslensku samfélagi. Auðvelt aðgengi að fræðslu í gegnum forritið Bara tala gefur öllum tækifæri á að læra íslensku. Við leggjum áherslu á að starfsfólk læri íslensku jafnt innan sem og utan vinnutíma,“ segir Eir Arnbjarnardóttir, mannauðsstjóri Center Hotels.

Íslenskan er lykillinn að samfélaginu

Í síðasta mánuði hlaut Bara tala viðurkenningu sem menntasproti atvinnulífsins. Í kjölfarið hafði Hæfnisetur ferðaþjónustunnar samband við þróunarteymi Bara tala og þar var samið um að Hæfnisetrið myndi deila fagorðalistum ferðaþjónustunnar. Fagorðalistarnir voru þróaðir af Hæfnisetrinu í samvinnu við starfsfólk í ferðaþjónustu og hagsmunaaðila ferðaþjónustunnar og muna nú einnig nýtast notendum Bara tala.

„Það var mikilvægt fyrir Hæfnisetrið að deila fagorðalistum ferðaþjónustunnar til að notendur Bara tala geti tileinkað sér orðaforða ferðaþjónustunnar. Eitt af hlutverkum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar er að stuðla að aukinni notkun íslensku í ferðaþjónustu og Bara tala styður við fjölbreyttar leiðir til íslenskunáms. Vilji til samstarfs er lykilatriði þegar stuðla á að inngildingu og við fögnum þessari þróun,“ segir Bryndís Skarphéðinsdóttir frá Hæfnisetri Ferðaþjónustunnar.

„Við hjá Bara tala finnum fyrir miklum meðbyr og erum þakklát fyrir hlýjar móttökur. Það veitir okkur mikla gleði og fyllir okkur svo miklu stolti að sjá fólk nýta sér menntatæknilausnina okkar og finna að það nær árangri. Við vitum öll að íslenskan er lykillinn að samfélaginu,“ segir Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri Bara tala.

Íslendingar sýni meiri þolinmæði

„Saman köllum við eftir vitundarvakningu og biðlum til Íslendinga að sýna meiri þolinmæði þegar þeir heyra íslensku með hreim því fólk sem lærir tungumálið þarf aukið svigrúm á að halda til að ná tökum á tungumálinu. Íslenska með hreim er nefnilega tákn um hugrekki,“ segir Jón Gunnar.

Jón Gunnar Þórðarson frá Bara tala og Eir Arnbjarnardóttir frá …
Jón Gunnar Þórðarson frá Bara tala og Eir Arnbjarnardóttir frá Center Hotels. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert