Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet hefur flug á milli Íslands og Parísar í haust. Um er að ræða nýja flugleið hjá flugfélaginu sem flýgur nú þegar til Íslands frá sex öðrum stöðum í Evrópu. EasyJet flýgur á Orly-flugvöllinn.
Greint er frá nýju flugleiðinni á vef Isavia.
„Við erum virkilega ánægð með að easyJet hafi ákveðið að bæta við nýjum áfangastað frá Keflavíkurflugvelli. Það segir okkur hversu vinsæll áfangastaður Ísland er fyrir ferðamenn. Við erum spennt að taka á móti gestum easyJet frá París síðar á árinu,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia í tilkynningu á vef Isavia.
Fram kemur í tilkynningu að fyrsta flugið verður 3. september 2024 og mun easyJet fljúga tvisvar sinnum í viku í vetur. Auk þess flýgur flugfélagið frá Bristol, Edinborg, London Gatwick, London Luton, Manchester og Mílanó.
Íslendingar sem ætla skella sér til Parísar á næstunni geta valið um fleiri flugfélög en áður. Icelandair flýgur á Charles de Gaulle-flugvöllinn. Play flýgur einnig til París og lendir einnig á flugvellinum sem er kenndur við Charles de Gaulle.