„Við vor­um svo spennt­ar yfir þessu og vild­um ekki bíða“

Vinkonurnar Erika og Dýrleif eru að upplifa sannkallað ævintýri í …
Vinkonurnar Erika og Dýrleif eru að upplifa sannkallað ævintýri í Asíureisu. Samsett mynd

Þegar vinkonurnar Erika Brink Viðarsdóttir og Dýrleif Guðjónsdóttir héldu af stað í heljarinnar ferðalag seinni partinn í janúar óraði þær ekki fyrir því hvernig upplifunin yrði. Þær segjast gáttaðar yfir öllu því sem heimurinn hafi upp á að bjóða og segja ný ævintýri bíða þeirra á hverju horni. Stöllurnar koma til með að heimsækja tíu lönd og eru nú staddar í Laos í Suðaustur-Asíu. 

„Urðum fljótt góðar vinkonur“

Erika og Dýrleif kynntust í vinnunni. Þær störfuðu báðar hjá Brauð & co. á Laugaveginum. „Við urðum fljótt góðar vinkonur. Við áttum margt sameiginlegt sem tengdi okkur saman,“ segja þær, en vinkonurnar voru báðar að reyna að finna út úr því hvað þær vildu gera. 

Einn daginn varpaði Erika fram hugmyndinni um heimsreisu. „Þetta var bara grín og sett fram í hugsunarleysi. Það sem kom mest á óvart er að Dýrleif sagði já af fullri alvöru og nánast án þess að blikka auga,“ útskýrir Erika. Vinkonurnar sóuðu engum tíma og fóru á fullt að skipuleggja ferðalagið með Kilroy. 

Stelpurnar hafa ferðast víða.
Stelpurnar hafa ferðast víða. Ljósmynd/Aðsend

„Við vorum svo spenntar yfir þessu og vildum ekki bíða,“ segir Dýrleif. „Okkur langaði til þess að reyna að skipuleggja ferðalagið hratt og vel og leggja strax af stað. Það var upphafsplanið en gekk því miður ekki upp. Það reyndist of dýrt. Þá endurhugsuðum við áformin og byrjuðum aftur að skipuleggja ferðalagið nokkrum mánuðum síðar,“ útskýrir Dýrleif. 

Stöllurnar lögðu af stað þann 25. janúar síðastliðinn. „Við fengum þær upplýsingar að hentugasti ferðatíminn væri frá desember til mars, en þá er þurrkatímabil í Suður-Asíu,“ útskýra þær. 

Fyrsta stoppið var í Dúbaí

Erika og Dýrleif verða á faraldsfæti næstu vikurnar. „Fyrsta stoppið okkar var í Dúbaí,“ segja vinkonurnar. „Við heimsækjum tíu lönd í heildina og erum þegar búnar að fara til Maldíveyja, Sri Lanka, Tælands, Kambódíu, Víetnam og Dúbaí. Um þessar mundir erum við staddar í Laos, en það er nóg eftir að sjá og upplifa enda erum við ekki hálfnaðar,“ segja vinkonurnar. 

Stúlkurnar vöknuðu eldsnemma á hverjum morgni til að fara á …
Stúlkurnar vöknuðu eldsnemma á hverjum morgni til að fara á brimbretti. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurðar hvaða staður hafi verið eftirminnilegastur hingað til þá eru þær sammála um að Sri Lanka hafi staðið upp úr. „Það var ótrúlega gaman að heimsækja Sri Lanka. Þar gistum við í svokölluðum brimbrettabúðum (e. surf camp) og fengum frábært tækifæri til að kynnast fullt af fólki á okkur aldri frá öllum heimshornum. 

Við vorum vaknaðar eldsnemma á hverjum morgni til þess að fara á brimbretti,“ segja Erika og Dýrleif. 

Vinkonurnar segja upplifunina nánast ólýsanlega.
Vinkonurnar segja upplifunina nánast ólýsanlega. Ljósmynd/Aðsend

Hvar upplifðu þið mesta menningarsjokkið?

„Mesta menningarsjokkið var klárlega í Kambódíu,“ segir Erika. „Við gistum heima hjá fjölskyldu í litlu tréhúsi í ferðamannaþorpi sem kallast Chambok Village. Við sváfum á dýnum á gólfinu. Það var líka skrýtið að sjá klósettið, en það var lítil fata, staðsett utandyra, og 20 manns skiptust á að nota hana. Þarna voru engar sturtur og eina leiðin til að þvo sér almennilega var með blautþurrkum,“ útskýrir Erika. 

Dýrleif upplifði mesta menningarsjokkið á Maldíveyjum. „Ég var að búast við allt öðru en því sem við enduðum á að upplifa. Við heimsóttum þrjár eyjur. Þar sem Maldíveyjar eru múslimaland þá þurftum við að klæðast fötum sem náðu niður fyrir hné og þurftum einnig að passa að hylja axlirnar á okkur. 

Á hverri eyju var ein strönd, aðeins fyrir ferðafólk, þar sem þú máttir vera á baðfötum. Strendurnar, sjórinn og umhverfið er allt mjög fallegt en þetta var reyndist vel ólíkt því sem er kynnt,“ segir Dýrleif sem mælir frekar með að halda sig frá þessum hefðbundnu ferðamannasvæðum. 

Það er nóg að sjá og upplifa.
Það er nóg að sjá og upplifa. Ljósmynd/Aðsend

Hvers hlakkar þú mest til við að koma heim?

„Ég hlakka mjög mikið til að hitta fjölskylduna mína. Það væri samt líkt mér að koma heim og þrá strax að halda aftur út. Ég átti aldrei von á þessu ævintýri og var hálfhrædd í byrjun, en ég er ævinlega þakklát foreldrum mínum sem ýttu á eftir mér og hvöttu mig til þess að gera þetta,“ segir Erika. 

Dýrleif er einnig full tilhlökkunar að hitta fjölskyldu sína á ný. „Það var erfitt að kveðja fjölskylduna en alls ekki erfitt að flýja vonda veðrið á Íslandi. Ég hlakka mikið til að hitta alla aftur og hundinn minn, ég sakna hans mikið. Það verður líka gott að hætta að pakka niður í ferðatösku á nokkurra daga fresti. Ég er líka svolítið spennt að fá mér góðan bragðaref,“ segir Dýrleif. 

Næstu ævintýri stúlknanna eru gífurlega spennandi. Á næstu dögum halda þær á fílasvæði í Tælandi þar sem þær munu vinna í heila viku. 

„Við fáum að gefa þeim að borða, baða þá og bara njóta þess að vera í kringum þá. Verðum hálfgerðar pössunarpíur fyrir fíla í heila viku. Eftir það er það bara áframhaldandi eyjahopp. Við endum ferðalagið á Balí og verðum það í heilan mánuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert