Inga Lind Karlsdóttir, framleiðandi og fjölmiðlakona, virðist vera yfir sig hrifin af ævintýraeyjunni Lanzarote. Hún er nýkomin heim til Íslands eftir að hafa átt góðar stundir á eyjunni með börnunum sínum.
Inga Lind birti myndir frá fríinu á Instagram-síðu sinni, en hún fór meðal annars á bak á kameldýri, á jet-ski, í golf og á ströndina. „Þarf að fara aftur til Lanzarote. Mæli með!“ skrifaði hún við myndaröðina.
Lanzarote er austasta eyja Kanaríeyja og tilheyrir Las Palmas-héraði. Falleg náttúra, töfrandi strendur og fjölskylduvæn hótel einkenna eyjuna sem er staðsett í um 140 km fjarlægð frá strönd Afríku.
Mæðgurnar fóru einnig á veitingastaðinn Kaori Fusion á Fariones-hótelinu og voru í skýjunum með kræsingarnar sem þær fengu þar.
„Á Lanzarote fórum við stelpurnar á algjörlega meiriháttar veitingastað, Kaori Fusion á Fariones-hótelinu. Það var svo sannarlega bæði Food and Fun þegar eigandinn, Victor Planas, var mættur á Fiskmarkaðinn í vikunni til að gleðja bragðlauka gestanna þar. Við José Carlos Esteso Lema sendiráðsfulltrúi og Kristin Arna Bragadóttir hjá Millilandaráði og konsúlati Spánar á Íslandi skelltum okkur auðvitað og vorum í skýjunum. Victor er líka með veitingastaðinn Kensei á Tenerfie sem margir Íslendingar þekkja,“ skrifaði hún um veitingastaðinn.