Vilja hefja beint flug til Íslands

Það er margt að sjá í Nashville.
Það er margt að sjá í Nashville. Samsett mynd

Alþjóðlegi flugvöllurinn í Nashville, höfuðborg Tennessee, er með áform um að hefja beint áætlunarflug til sex Evrópulanda. Flugvallafulltrúar eru sagðir vilja rækta tengsl við fleiri lönd og er Ísland meðal þeirra.

Þróunaráætlun hefur verið í vinnslu undanfarin misseri en síðastliðnar vikur og mánuði hefur verið unnið að viðgerðum og stækkun flugvallarins.

Í apríl opna sex ný hlið sem eiga að hjálpa til við að auka ferðamannastraum frá Evrópu. Ásamt Íslandi þá hefur Alþjóðlegi flugvöllurinn í Nashville einnig augastað á Írlandi, Hollandi, Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi.

Tónleikar á flugvellinum

Flugvallafulltrúar Nashville eru á leið til Bógóta í Kólumbíu á næstu dögum. Þar munu þeir sækja Routes Americas-ráðstefnuna, sem er vettvangur sérfræðinga í flugiðnaði. Stefnan er sett á að byggja upp góð tengslanet við evrópsk flugfélög.

Nashville er ein af þekktustu tónlistarborgum í heimi. Flugvöllurinn sker sig frá öðrum en hann býður upp á tónleika. Yfir 100 ókeypis tónleikar fara fram á hverju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert